Rithöfundasamband Íslands

The Writers' Union of Iceland


BARNABÓKAVERÐLAUN REYKJAVÍKURBORGAR 2022

Verðlaunahafar ásamt formanni dómnefndar og borgarstjóra.

Linda Ólafsdóttir, Sverrir Norland og Kristín Helga Gunnarsdóttir hljóta Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar 2022 fyrir bækurnar Reykjavík barnannaEldhugar: Konurnar sem gerðu aðeins það sem þær vildu; og Ótemjur.

Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar voru veitt í Höfða í dag á síðasta vetrardegi, miðvikudaginn 20. apríl. Borgarstjórinn í Reykjavík, Dagur B. Eggertsson, afhenti verðlaunin við hátíðlega athöfn og Chadman Naimi, 12 ára nemandi við Tónskóla Sigursveins, flutti einleiksverk á píanó.

Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar eru veitt í þremur flokkum bóka fyrir börn og ungmenni, flokki bóka frumsaminna á íslensku, flokki myndlýsinga og flokki þýðinga. Þetta eru elstu barnabókverðlaun landsins en þau voru fyrst veitt sem Barnabókaverðlaun fræðsluráðs Reykjavíkur árið 1973. Árið 2016 voru Dimmalimm verðlaunin og Barnabókaverðlaun Reykjavíkur sameinuð og urðu flokkarnir þá þessir þrír. Verðlaunaféð er 350.000 kr. í hverjum flokki.

FJÖLBREYTT BARNABÓKAFLÓRA

Í ár fékk dómnefndin yfir 100 bækur til skoðunar. Fimm bækur voru tilnefndar í hverjum flokkanna þriggja og nú er ljóst hvaða þrjár bækur hljóta verðlaunin í ár. Dómnefnd verðlaunanna skipuðu þau Tinna Ásgeirsdóttir, sem var formaður, Ásmundur Kristberg Örnólfsson, Guðrún Lára Pétursdóttir, Karl Jóhann Jónsson og Valgerður Sigurðardóttir.

Linda Ólafsdóttir hlýtur Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar í flokki myndlýsinga fyrir bókina Reykjavík barnanna. Iðunn gefur út.

Sverrir Norland hlýtur Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar í flokki þýðinga fyrir þýðingu sína á bókinni Eldhugar: Konurnar sem gerðu aðeins það sem þær vildu eftir Pénélope Bagieu. AM forlag gefur út.

Kristín Helga Gunnarsdóttir hlýtur Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar í flokki frumsaminna bóka fyrir bókina Ótemjur. Bjartur gefur út.

Rithöfundasamband Íslands óskar höfundunum innilega til hamingju með verðlaunin!

Rökstuðning dómnefndar má lesa hér.


Kristín Helga Gunnarsdóttir hlýtur Menningarviðurkenningu RÚV 2021

Kristín Helga Gunnarsdóttir hlaut Menningarviðurkenningu RÚV fyrir ritstörf þann 6. janúar sl. Það var samdóma álit stjórnar sjóðsins að beina sjónum að barnabókmenntum í ár.

Úr umsögn stjórnar:

„Alkunna er að mikil gróska hefur verið í útgáfu barnabóka síðustu ár og misseri. Höfundarnir eru mýmargir og segja má að barnabókin sé oft mun pólitískari nú í seinni tíð og flytji ungu fólki kröftugan boðskap,“ sagði Guðjón Ragnar Jónasson, formaður stjórnar, í ávarpi sem flutt var í Víðsjá á Rás 1. „Kristín leggur líka áherslu á að hún skrifi fjölskyldubókmenntir: Bækur sem fullorðnir og ungir lesi saman. Þannig styrkjum við sagnahefðina sem einkennt hefur samfélögin um aldir.“

Kristín Helga segir í viðtali við Jórunni Sigurðardóttur að hún vilji með því sporna við markaðsöflunum. „Mér finnst svo óþolandi að markaðskerfi hafa ruðst inn í þessa listgrein, ritlistina, og krefji okkur um aldurstakmark á bókum,“ segir hún og vísar til verslana og söluaðila bóka sem vilja merkja barnabækur eftir aldursflokkum. „Ég þarf að segja að mín bók sé fyrir káta krakka á einhverjum aldri, að vísu þarf ég ekki að segja fyrir drengi og stúlkur lengur, þakka skyldi. En ef ég skrifa fyrir fullorðna þá þarf ég ekki að gera það. Sem þyrfti kannski að gera? Fyrir káta karla á aldrinum 45-65 til dæmis? En þetta eru takmörk, við erum að reisa veggi og hefta listgrein. Um leið og þú flytur þig yfir í aðrar listgreinar þá er enginn sem krefur myndlistarmann eða kvikmyndagerðarmann um að aldursgreina alveg niður í mánuði hvað barnið á að vera gamalt til að geta notið listarinnar.“

Rithöfundasamband Íslands óskar Kristín Helgu innilega til hamingju með viðurkenninguna!


Tilnefningar til Barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2018

Dómnefnd barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs hefur birt tilnefningar til verðlaunanna á árinu 2018. Frá Íslandi eru tilnefndar bækurnar Vertu ósýnilegur – Flóttasaga Ishmaels eftir Kristínu Helgu Gunnarsdóttir og Skrímsli í vanda eftir Áslaugu Jónsdóttur, Kalle Güettler & Rakel Helmsdal.

aslaug_kristinhelga

Áslaug Jónsdóttir og Kristín Helga Gunnarsdóttir

Alls eru tilnefndar 12 bækur frá öllum Norðurlöndunum.


Fjöruverðlaunin 2018

Fjöruv

Fjöruverðlaunin, bókmenntaverðlaun kvenna, voru afhent við hátíðlega athöfn í Höfða 15. janúar 2018.

Verðlaunin hlutu:

Í flokki fagurbókmennta:

Elín, ýmislegt eftir Kristínu Eiríksdóttur

Í flokki barna- og unglingabókmennta:

Vertu ósýnilegur, flóttasaga Ishmaels eftir Kristínu Helgu Gunnarsdóttur

Í flokki fræðibóka og rita almenns eðlis:

Undur Mývatns – um fugla, flugur, fiska og fólk eftir Unni Jökulsdóttur

Þetta í tólfta sinn sem Fjöruverðlaunin eru veitt og í fjórða sinn síðan borgarstjóri Reykjavíkur, bókmenntaborgar UNESCO, gerðist verndari verðlaunanna og bauð Dagur B. Eggertsson gesti velkomna og afhenti verðlaunahöfum blóm. Verðlaunahafar fá verðlaunagripi gerða af listakonunni Koggu og gjafabréf fyrir dvöl á Kolkuósi í Skagafirði.

Continue reading


Jæja …

Kristín Helga Gunnarsdóttir

Það ríkir rafræn gleði í Gunnarshúsi því nú í aprílbyrjun er ný heimasíða Rithöfundasambandsins flogin út í netheima. Hún er skilvirk og skemmtileg, þægileg að vinna með og vonandi mun aðgengilegri fyrir félagsmenn en sú gamla. Það er Áslaug Jónsdóttir, bókverkakona, sem ber hita og þunga af hönnun og framsetningu nýju vefsíðunnar. Hafi hún elskusamlegar þakkir fyrir fagurt handverk. Þá hefur okkar eigin Ragnheiður verið yfir og allt um kring og mun vefsíðan verða hennar starfsvettvangur og leikvöllur. Hún brosir hringinn og það veit á gott. Helstu nýjungar verða veftímaritið Höfundurinn, en þar verður vettvangur fyrir pistla og vangaveltur félagsmanna. Útgáfuráð RSÍ sér um tímaritið og mun boðkefli ganga á milli höfunda sem grípa það þá og skrifa. Þá er formaður kominn með sinn koll í horni.

Vinnustofur Gunnarshúss eru komnar í gagnið og þrír höfundar nýta sér aðstöðuna í aprílmánuði. Það er ástæða til að brýna fyrir félagsmönnum að tryggja sér skrifstofurými fyrir haustið, sé áhugi fyrir hendi.

Í vetur hafa hin ýmsu ráð RSÍ verið að störfum, en þau voru stofnuð í fyrra. Verið er að skoða samninga, en samningur við útgefendur er laus í árslok og í skoðun er hvort taka skuli upp viðræður um hann að nýju. Einnig eru málefni þýðenda til skoðunar.

Síðastliðið starfsár hefur verið annasamt og stór slagur var tekinn við stjórnvöld um bókaskattinn. Hann var lagður á þrátt fyrir hávær mótmæli, þrotlausa fundi og fortölur. Segja má að varnarsigur hafi unnist með því að Bókasafnssjóður var hækkaður upp í sömu tölu og hann var í 2013, en sjóðurinn var skorinn niður um helming á síðasta ári. Þar eru þó sóknarfæri því sjóðurinn er enn skammarlega lítill. Við munum því kalla eftir viðræðum við stjórnvöld um sjóðinn til að stækka hann og skapa honum viðunnandi lagalegt umhverfi til framtíðar.

Framundan eru vordagar blíðir. Þing norrænna rithöfundasambanda verður haldið nú í maí í samstarfi við Hagþenki. Þá er framundan opinn upplýsinga- og samstarfsfundur um rafbókina í nútíð og framtíð. Að auki verða í apríl pallborðsumræður um framtíð bókarinnar á vegum Bókmenntaborgarinnar. Allt verður þetta auglýst hér á nýju heimasíðunni.

Þá er vert að minna á að félagsmenn eru með lokaða spjallsíðu á Fésbók sem þeir nýta ýmist til að minna á sig eða málefnin hverju sinni. Leitið hana endilega uppi og bætið ykkur í hópinn; Félagar í Rithöfundasambandi Íslands.

Aðalfundur RSÍ verður þriðjudaginn 21. apríl með tilheyrandi stjórnarkjöri. Félagsmenn eru hvattir til að fjölmenna. Á fundinum verða einnig til umræðu lagabreytingar, til dæmis varðandi rafrænar kosningar í framtíðinni.

Þrír öflugir liðsmenn ganga nú úr stjórn. Það eru þau Sölvi Björn Sigurðsson, Oddný Eir Ævarsdóttir og Úlfhildur Dagsdóttir. Ég þakka þeim hjartanlega fyrir vel unnin störf í þágu félagsins og er handviss um að stjórnin getur áfram leitað til þeirra ef á þarf að halda.

Lifið heil!
Kristín Helga