Rithöfundasamband Íslands

The Writers' Union of Iceland

Réttindi rétthafa

Þeir rétthafar, sem fyrir gildistöku laga um sameiginlega umsýslu höfundarréttar nr. 88/2019 þann 1. janúar 2020, hafa gefið Rithöfundasambandinu heimild til að hafa umsjón með réttindum sínum er bent á að neðangreind réttindi rétthafa 1.–6. mgr. 3. gr. sömu laga, þar sem kveðið er á um tiltekin réttindi rétthafa, eiga einnig við um þá. Ákvæðið er svohljóðandi:

 3. gr. Réttindi rétthafa.

 Rétthafar geta heimilað sameiginlegri umsýslustofnun að eigin vali að hafa umsjón með réttindum, flokkum réttinda eða tegundum verka og annars efnis sem þeir velja sér, fyrir þau landfræðilegu yfirráðasvæði sem þeir velja sér. Sameiginlegri umsýslustofnun ber skylda til að hafa umsjón með slíkum réttindum, flokkum réttinda eða tegundum verka og öðru efni nema umsýslustofnun hafi hlutlægt rökstuddar ástæður til að neita slíkri umsýslu, svo fremi að umsýslan sé innan þess sviðs sem starfsemi hennar nær til.

Athugasemd: Í þessu felst að rétthöfum er frjálst að velja þá sameiginlegu umsýslustofnun sem þeir heimila umsjón með réttindum sínum, óháð því t.d. í hvaða landi innan EES hún starfar eða hvar hún var stofnuð. Hlutlægar ástæður til að neita að hafa umsjón með réttindum eða verkum rétthafa geta t.d. verið að hún hafi einungis rétthafasamtök fyrir félagsaðila en ekki einstaka rétthafa.

 Þegar rétthafi heimilar sameiginlegri umsýslustofnun að annast umsjón með réttindum sínum skal hann veita sérstakt og sannanlegt samþykki fyrir hver réttindi, flokk réttinda eða tegund verka og annað efni sem hann heimilar umsýslustofnuninni að hafa umsjón með.

Athugasemd: Hvorki flokkar né tegundir verka er skilgreindar í lögunum. Þau verk og réttindi sem Rithöfundasambandið hefur í höndum er því skilgreint í lögum sambandsins. Krafan um sérstakt og sannanlegt samþykki felur í sér kröfu um að rétthafinn veiti upplýst samþykki fyrir því hvaða réttindi, flokk réttinda eða verk Rithöfundasambandið fær heimild til að hafa umsjón með. Samþykkið þarf ekki endilega að vera skriflegt, þótt það geti það vissulega. Þannig stendur til að breyta lögum Rithöfundasambandsins á þann veg að bætt verði skýru ákvæði um þetta ásamt því að þessar upplýsingar komi fram áður en nýr umsækjandi sækir um félagsaðild að sambandinu. Slíkt sérstakt og sannanlegt samþykki kemur ekki í veg fyrir að rétthafar geti samþykkt breytingar á því síðar, hvaða réttindi eða flokka réttinda þeir heimili Rithöfundasambandinu að hafa umsjón með fyrir sína hönd, t.d. ef sambandið útvíkkar starfsemi sína og tekur að sér umsýslu nýrra flokka réttinda. Ef slíkar breytingar eru skýrt settar fram í samþykktum Rithöfundasambandsins og eru nægjanlega auglýstar getur þegjandi samkomulag rétthafa talist uppfylla kröfur laganna.

 Rétthafar eiga rétt á að veita leyfi sem ekki eru í viðskiptalegum tilgangi til notkunar á réttindum, flokkum réttinda eða tegundum verka og öðru efni sem þeir kunna að velja. Sameiginleg umsýslustofnun sem hefur verið falin umsjón með réttindum rétthafa skv. 1. mgr. getur ákveðið skilmála fyrir hagnýtingu slíkra réttinda.

Athugasemd: Ákvæðið á við þegar rétthafar hafa veitt Rithöfundasambandinu umboð til umsýslu réttinda sinna, jafnvel þótt slíkt umboð veiti sambandinu einkarétt til umsýslu þeirra réttinda. Skilmálar fyrir hagnýtingu slíkra réttinda skulu þó einungis sett sé það nauðsynlegt vegna umsýslu sambandsins meðal annars með tilliti til skilvirkni.

 Rétthafar geta fellt úr gildi heimild til að hafa umsjón með réttindum, flokkum réttinda eða tegundum verka og öðru efni sem þeir veita sameiginlegri umsýslustofnun eða afturkallað hver þau réttindi, flokka réttinda eða tegundir verka og annað efni sem þeir vilja hjá sameiginlegri umsýslustofnun, eins og kveðið er á um í 1. mgr., fyrir þau landfræðilegu yfirráðasvæði sem þeir velja, með hæfilegum fyrirvara sem er ekki lengri en sex mánuðir. Sameiginleg umsýslustofnun getur þó ákveðið að slík uppsögn eða afturköllun taki einungis gildi eftir lok fjárhagsársins.

Athugasemd: Réttur til afturköllunar tekur einnig til landfræðilegra yfirráðasvæða, þ.e. rétthafar geta t.d. afturkallað heimildina til umsjónar í öðrum löndum, einu eða fleirum, eða þeir geta afturkallað umsjón með ákveðnum verkum eða flokkum réttinda, eða bæði.

 Ef rétthafi á rétt á greiðslum vegna nýtingar sem fór fram áður en heimild var sagt upp eða afturköllun réttinda tók gildi, eða á grundvelli leyfis sem veitt var áður en slík uppsögn eða afturköllun tók gildi, skal rétthafinn halda réttindum sínum skv. 14.–16., 19., 21., 29. og 34. gr.

 Sameiginlegri umsýslustofnun er ekki heimilt að takmarka nýtingu réttinda sem kveðið er á um í 4. og 5. mgr. með því að krefjast þess sem skilyrði fyrir nýtingu þessara réttinda að umsýsla réttinda, flokka réttinda eða tegunda verka og annars efnis, sem fellur undir uppsögnina eða afturköllunina, verði falin annarri sameiginlegri umsýslustofnun. Þetta á þó ekki við um þegar sameiginleg umsýsla réttinda er skyldubundin.

Athugasemd: Ákvæðið á ekki við þegar lög krefjast þess að nýting réttinda sé í höndum sameiginlegrar umsýslustofnunar. Þetta á við í tveimur tilvikum samkvæmt höfundalögum. Í fyrsta lagi verður innheimta fylgiréttargjalds aðeins í höndum sameiginlegrar umsýslustofnunar sem hafi viðurkenningu ráðuneytisins, sbr. 5. mgr. 25. gr. b. höfundalaga. Í öðru lagi verður þóknun fyrir opinbera flutning á hljóðriti samkvæmt 47. gr. höfundalaga einungis innheimt af nánar tilgreindri sameiginlegri umsýslustofnun, sbr. 2. mgr. 47. gr. höfundalaga. Ákvæðið á því ekki við um þau réttindi sem Rithöfundasambandið sýslar með.