Rithöfundasamband Íslands

The Writers' Union of Iceland


Elías Snæland Jónsson látinn

Elías Snæ­land Jóns­son, rit­höf­und­ur og rit­stjóri, er lát­inn, 79 ára að aldri. Hann lést á Land­spít­al­an­um 8. apríl síðastliðinn.

Elías fædd­ist á Skarði í Bjarnar­f­irði á Strönd­um 8. janú­ar 1943. For­eldr­ar hans voru Jón Mika­el Bjarna­son og Hulda Svava Elías­dótt­ir. Ung­ur flutti Elías með for­eldr­um sín­um suður í Njarðvík og ólst þar upp. Stundaði nám við Sam­vinnu­skól­ann á Bif­röst og lauk þaðan prófi árið 1962. Í fram­haldi af því fór hann til náms í blaðamennsku í Nor­egi, sem markaði braut hans til framtíðar. Elías var blaðamaður á Tím­an­um 1964-1973 og rit­stjóri Nýrra þjóðmála 1974-1976. Hann var blaðamaður og rit­stjórn­ar­full­trúi á Vísi 1975-1981 og í fram­haldi af því rit­stjóri Tím­ans 1981-1984. Fór svo til starfa á DV sem aðstoðarrit­stjóri og var til 1997. Var síðan rit­stjóri á Degi til 2001.

Jafn­hliða blaðamennsku skrifaði Elías fjölda bóka af ýms­um toga. Leik­ritið Fjöru­brot fugl­anna var frum­sýnt í Borg­ar­leik­húsi ungs fólks í Dres­den (Thea­ter Junge Generati­on) í þýskri þýðingu 1999. Hann hlaut Íslensku barna­bóka­verðlaun­in fyr­ir Brak og bresti 1993 og saga hans Ná­vígi á hvala­slóð, sem kom út árið 1998, var á heiðurslista barna­bóka­sam­tak­anna IBBY. Skáld­sag­an Draum­ar und­ir gadda­vír kom út 1996.

Einnig skrifaði Elías ým­is­legt um sögu­leg efni. Tók meðal ann­ars sam­an bók­ina Möðru­valla­hreyf­ing­in, en það var klofn­ings­brot úr Fram­sókn­ar­flokkn­um. Er sú bók einnig lýs­ing á mörgu í sam­fé­lagi þess tíma. Þá skrifaði Elías bók­ina Síðasta dag­blaðið á vinstri vængn­um sem fjallaði um út­gáfu Dags í rit­stjóratíð hans. Sem ung­ur maður var Elías virk­ur í starfi Fram­sókn­ar­flokks­ins og síðar Sam­taka frjáls­lyndra og vinstri manna. Þá var hann formaður Blaðamanna­fé­lags Íslands 1972-1973. Elías var félagsmaður í Rithöfundasambandi Íslands frá 1986.

Eft­ir­lif­andi eig­in­kona Elías­ar er Anna Krist­ín Brynj­úlfs­dótt­ir, rit­höf­und­ur og fyrr­ver­andi lat­ínu- og stærðfræðikenn­ari. Syn­ir þeirra eru þrír og barna­börn­in fjög­ur.

Rithöfundasamband Íslands vottar aðstandendum Elíasar samúð.


Guðrún Helgadóttir – minning

Guðrún Helgadóttir. Eitt stærsta nafnið í íslenskri rithöfundastétt og án nokkurs vafa sá barnabókahöfundur sem naut mestra vinsælda og virðingar á meðal lesenda sinna. Fyrsta bók Guðrúnar, Jón Oddur og Jón Bjarni, var ekki fyrr komin út en lesendum varð ljóst að þar var komin rödd sem hafði mikið fram að færa. Hún var bæði skemmtileg, spennandi, fyndin, hugmyndarík og vakti til umhugsunar. En fyrst og síðast var bókin skrifuð af skilningi og virðingu fyrir veruleika og hugmyndaheimi barnanna.

Guðrún gekk í Rithöfundasamband Íslands árið 1976 og var gerð að heiðursfélaga sama sambands 2002. Guðrún hafði miklar og skýrar skoðanir á málefnum listamanna eins og öðrum málum og það var mikils virði að hafa hana innan vébanda Rithöfundasambandsins, því þó að hún gegndi ekki trúnaðarstörfum á vegum RSÍ var hún afar virk sem almennur félagsmaður, var óspör á innsæi sitt og tjáði sig af hispursleysi og skynsemi.

Ferill Guðrúnar sem höfundar var glæsilegur og nú þegar hún fellur frá skilur hún eftir sig háan bunka af verkum sem lifa höfund sinn og vekja ennþá aðdáun, kátínu og meðlíðan með þeim sönnu og ljóslifandi persónum sem hún skóp. Tvíburarnir Jón Oddur og Jón Bjarni urðu ódauðlegir í þremur bókum, Hafnarfjarðarþríleikurinn Sitji guðs englar á eftir að heilla og verma börn og fullorðna um ókomna tíð og leikritið Óvitar er orðið sígilt leikverk í íslensku leikhúsi. Og þetta er aðeins brot af höfundarverki Guðrúnar, þar sem fjölbreytnin, mannskilningurinn og húmorinn eiga sér engin takmörk.

Þegar Jón Oddur og Jón Bjarni komu út árið 1974 var ég kominn hátt á tvítugsaldur og hættur að lesa barnabækur. Það hélt ég að minnsta kosti. Þessi bók hafði algjörlega farið framhjá mér, en svo var það samstarfsmaður minn, maður um sjötugt, sem spurði hvort ég hefði lesið bókina hennar Guðrúnar Helgadóttur. Þegar ég svaraði því neitandi sagði hann að það næði ekki nokkurri átt. „Þú átt að lesa almennilegar bækur, drengur,“ sagði hann. Og vegna þess að sami maður hafði skipað mér að lesa Dostojevski, þá tók ég mark á honum og sannfærðist í kjölfarið um að ég mætti alls ekki hætta að lesa barnabækur, því þá væri ég bara að gera sjálfum mér óleik. Það vildi síðan svo skemmtilega til að við Guðrún hittumst í fyrsta sinn á samlestri á kvikmyndahandriti Þráins Bertelssonar um grallarana Jón Odd og Jón Bjarna. Guðrún sagði okkur í upphafi að hún hefði ekkert vit á kvikmyndagerð og ætlaði ekki að skipta sér af nokkrum sköpuðum hlut. Svo sat hún og hlustaði á okkur leikarana leiklesa handritið, hló með okkur og velti vöngum – því auðvitað hafði hún meira vit á því sem framundan var en hún vildi vera láta. Það var Gísli heitinn Halldórsson sem átti síðasta orðið á þessum samlestri. „Ég hafði ekki lesið þessar bækur þegar Þráinn bað mig um að leika í myndinni, svo ég settist inn á lestrarsalinn á Landsbókasafninu og las mig í gegnum þær. Þarna voru virðulegir fræðimenn að glugga í hin og þessi lexíkon og alvaran var allsráðandi allt um kring – og þarna sat leikarafíflið og las barnabækur og hló eins og vitleysingur.“

Leiðir okkar lágu nokkrum sinnum saman eftir þetta. Þegar Guðrún var forseti Alþingis tilheyrði ég hópi manna sem kallaði sig Spaugstofuna og hélt úti vikulegum gamanþætti í Sjónvarpinu. Forseti Alþingis varð oft og iðurlega skotspónn okkar og á tímabili birtist Siggi Sigjóns í hverri viku í gervi Guðrúnar. Ég var svo staddur einhvers staðar í Kringlunni þegar hvöss kvenrödd sagði fyrir aftan mig „Sérðu kvikindið?“ Þegar ég sneri mér við stóð Guðrún þar ásamt dóttur sinni. Við horfðumst í augu stutta stund en skelltum svo bæði uppúr. Hún hafði ýmislegt um það að segja hvernig það væri að vera þekkt persóna í íslensku samfélagi og verða að þola háð og spott gárunga eins og okkar. En hún sagðist hreint ekki geta kvartað, því allt væri þetta fyndið og létti þjóðinni lund – og sjálfri sér ekki síður.

Það var svo eftir frumsýningu á verki eftir mig í Þjóðleikhúsinu sem hún gekk til mín ákveðnum skrefum, tók í höndina á mér og kallaði mig kollega í fyrsta sinn. Þá vildi hún eiga við mig spjall – sem reyndar teygðist aðeins á langinn – um leikritsformið og það hlutskipti að vera leikskáld, en einkum og sér í lagi um þau augnablik þegar einhver sköpun brýst fram af svo miklu fjöri að höfundurinn fær ekki rönd við reist. Þá sagði hún mér að hún hefði skrifað leikritið Óvita á einum degi. „Þetta bara ruddist fram og ég gat ekki hætt fyrr en verkið var allt komið á blað.“

Eins og flestir vita hlaut Guðrún Helgadóttir ótal verðlaun fyrir verk sín og nægir þar að nefna Barnabókaverðlaun fræðsluráðs Reykjavíkur, Menningarverðlaun DV, Bókmenntaverðlaun starfsfólks bókaverslana, Bókaverðlaun barnanna, viðurkenningu rithöfundasjóðs Ríkisútvarpsins og Sögusteininn, heiðursverðlaun IBBY. Mikilvægasta viðurkenningin verður þó ævinlega þeir hugir og hjörtu barna og annarra lesenda sem hún vann með verkum sínum og sú virðing sem hún mun njóta um ókomna tíð fyrir framlag sitt til íslenskra bókmennta.

Rithöfundasamband Íslands þakkar Guðrúnu Helgadóttur fyrir samfylgdina og öll hennar ómetanlegu verk. Aðstandendum sendum við hjartans samúðarkveðjur.

Sjálfur mun ég alla tíð minnast Guðrúnar af hlýju og aðdáun, en einkum og sér í lagi með bros á vör.

Karl Ágúst Úlfsson
formaður Rithöfundasambands Íslands


Elín Pálmadóttir látin

Elín Pálma­dótt­ir blaðamaður og rithöfundur er lát­in, 95 ára að aldri.

Hún var fædd í Reykja­vík 31. janú­ar 1927. Hún lauk stúd­ents­prófi frá Mennta­skól­an­um í Reykja­vík árið 1947 og lagði síðan stund á nám í ensku og frönsku við Há­skóla Íslands og síðar er­lend­is. Þá gekk hún til liðs við ut­an­rík­isþjón­ust­una og starfaði m.a. hjá Sam­einuðu þjóðunum og í sendi­ráðinu í Par­ís. Elín hóf störf sem blaðamaður hjá Vik­unni 1952, en 1958 réðst hún til Morg­un­blaðsins þar sem hún vann þar til hún lét af störf­um fyr­ir ald­urs sak­ir 1997. Hún hlaut heiður­sviðkenn­ingu Blaðamanna­fé­lags­ins 1992, ridd­ara­kross fálka­orðunn­ar 1995 og var sæmd æðstu heiðursorðu Frakk­lands, Lé­gi­on d’honn­e­ur, árið 2015.

Eftir Elínu komu m.a. út bækurnar Gerður: ævisaga myndhöggvara 1985, Fransí bisk­ví um franska Íslands­sjó­menn 1989,en hún var til­nefnd til Íslensku bók­mennta­verðlaun­anna 1990 og kom einnig út á frönsku, og end­ur­minn­ing­arn­ar Eins og ég man það 2003.

Rithöfundasambandið þakkar Elínu samfylgdina og sendir ættingjum hennar samúðarkveðjur.


TILNEFNT TIL BARNABÓKAVERÐLAUNA REYKJAVÍKURBORGAR

Fimmtán bækur voru í dag tilnefndar til Barnabókaverðlauna Reykjavíkurborgar en verðlaunin verða hefðinni samkvæmt veitt í Höfða á síðasta vetrardag, 20. apríl, fyrir frumsamda barna- og ungmennabók, myndlýsingar og þýðingu. Tilnefningarathöfnin fór fram á Torginu í Borgarbókasafninu í Grófinni. Skúli Helgason, formaður skóla- og frístundaráðs, flutti ávarp og dómnefnd kynnti tilnefndar bækur og rökstuðning fyrir valinu.

Eftirtaldir rithöfundar, myndhöfundar og þýðendur eru tilnefndir til Barnabókaverðlauna Reykjavíkurborgar 2022 fyrir eftirtaldar bækur.

BARNA- OG UNGMENNABÆKUR FRUMSAMDAR Á ÍSLENSKU:

–        Þórunn Rakel Gylfadóttir: Akam, ég og Annika. Angústúra gefur út.

–        Arndís Þórarinsdóttir: Bál tímans. Mál og menning gefur út.

–        Hilmar Örn Óskarsson: Holupotvoríur alls staðar. Bókabeitan gefur út.

–        Kristín Helga Gunnarsdóttir: Ótemjur. Bjartur gefur út.

–        Margrét Tryggvadóttir: Sterk. Mál og menning gefur út.

MYNDLÝSINGAR Í BARNA- OG UNGMENNABÓKUM:

–        Rán Flygenring: Koma jól? Angústúra gefur út.

–        Áslaug Jónsdóttir: Skrímslaleikur. Mál og menning gefur út.

–        Hallveig Kristín Eiríksdóttir: Fuglabjargið. Bókabeitan gefur út.

–        Linda Ólafsdóttir: Reykjavík barnanna. Iðunn gefur út.

–        Elísabet Rún: Sólkerfið. JPV gefur út.

ÞÝDDAR BARNA- OG UNGMENNABÆKUR:

–        Guðni Kolbeinsson: Kynjadýr í Buckinghamhöll. Bókafélagið gefur út.

–        Jón St. Kristánsson: Seiðmenn hins forna. Angústúra gefur út.

–        Sólveig Sif Hreiðarsdóttir: Á hjara veraldar. Kver gefur út.

–        Sverrir Norland: Eldhugar. AM forlag gefur út.

–        Sverrir Norland: Kva es þak? AM forlag gefur út.

Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar eiga sér lengsta sögu barnabókaverðlauna á landinu og er helsta markmið þeirra að vekja athygli á því sem vel er gert í bókaútgáfu fyrir unga lesendur svo og að hvetja þá til bóklesturs.

Dómnefnd verðlaunanna í ár er skipuð Tinnu Ásgeirsdóttur formanni, Ásmundi Kristberg Örnólfssyni, Guðrúnu Láru Pétursdóttur, Karli Jóhanni Jónssyni og Valgerði Sigurðardóttur.

Rökstuðning fyrir vali dómnefndar má finna á heimasíðu Bókmenntaborgar.


Tilnefningar til barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2022

13 norrænar myndabækur, unglingabækur og ljóðabækur eru tilnefndar til barna- og unglingabókmennta- verðlauna Norðurlandaráðs 2022. Ærslafull frásagnargleði, sérstæð kímni og angurværð skína í gegn í hinum tilnefndu bókum, þar sem fjölbreyttir möguleikar myndabókaformsins eru áberandi. Verðlaunin verða afhent í Helsinki þann 1. nóvember.

Bækurnar sem tilnefndar eru í ár fjalla meðal annars um erfið viðfangsefni á borð við fordóma og uppreisn æru og leiða okkur í gegnum stríð og hryðjuverkaárásir áleiðis að von og gagnkvæmum skilningi. Einnig er fjallað um kynhlutverk, sjálfsmynd og uppruna út frá rökvísi barna – og ævaforn kálfskinnshandrit öðlast nýtt líf. Að auki er náttúru, vistfræði og óvissu og ringulreið ástarinnar lýst á þeysispretti.

Tvær íslenskar bækur eru tilnefndar:

Bál Tímans – Örlagasaga Möðruvallabókar í sjö hundruð ár eftir Arndís Þórarinsdóttur. Myndir eftir Sigmund B. Þorgeirsson. Útgefandi: Mál og menning, 2021.

Alexander Daníel Hermann Dawidsson: Bannað að eyðileggja eftir Gunnar Helgason. Myndir eftir Rán Flygenring. Útgefandi: Mál og menning, 2021.

Hér má sjá lista yfir allar tilnefndar bækur.

Rithöfundasamband Íslands óskar höfundum til hamingju með tilnefningarnar!


Heiðursfélagi látin

Guðrún Helgadóttir

Guðrún Helgadóttir, rithöfundur og fyrrverandi þingmaður, er látin 86 ára að aldri. Hún lést í nótt á hjúkrunarheimilinu Mörk í Reykjavík. Guðrún starfaði í stjórnmálum, bæði í borgarstjórn og á Alþingi, en er ekki síst minnst fyrir bækur sínar fyrir börn. Fyrsta bók hennar kom út 1974 og kynnti bræðurna Jón Odd og Jón Bjarna fyrir þjóðinni.

Bækurnar um Jón Odd og Jón Bjarna urðu þrjár talsins en auk þeirra má nefna bækur eins og Sitji guðs englar, Óvitar og bókina um brúðuna Pál Vilhjálmsson. Guðrún hlaut fjölda verðlauna fyrir skrif sín, allt frá því hún fékk barnabókaverðlaun fræðsluráðs Reykjavíkur fyrir frumraun sína Jón Odd og Jón Bjarna 1975 þar til hún fékk Sögusteininn, heiðursverðlaun IBBY árið 2018. Í millitíðinni fékk hún Menningarverðlaun DV, bókmenntaverðlaun starfsfólks bókaverslana, bókaverðlaun barnanna, viðurkenningu rithöfundasjóðs Ríkisútvarpsins og Norrænu barnabókaverðlaunin fyrir bókina Undan illgresinu. Guðrún var gerð heiðursfélagi í Rithöfundasambandi Íslands árið 2002.

Guðrún hlaut stórriddarakross hinnar íslensku fálkaorðu árið 1992.

Rithöfundasamband Íslands þakkar Guðrúnu samfylgdina og sendir fjölskyldu hennar og vinum samúðarkveðjur.


Opið fyrir umsóknir um ferðastyrki úr Höfundasjóði RSÍ

Rithöfundasamband Íslands veitir félagsmönnum ferðastyrki til utanlandsferða úr Höfundasjóði RSÍ. Rétt til að sækja um ferðastyrk hafa þeir sem hafa verið félagsmenn í RSÍ í a.m.k. eitt ár og eru skuldlausir við sambandið.  Úthlutað er eftir úthlutunarreglum og sótt er um á rafrænu eyðublaði á heimasíðu RSÍ.

Hægt er að sækja um fyrir ferðum sem þegar hafa verið farnar ef sótt er um innan þriggja mánaða frá ferðalokum. Einnig eru veittir styrkir til ferða sem farnar eru allt að níu mánuðum eftir umsóknarfrest.

Alla jafna eru veittir tíu ferðastyrkir við hverja úthlutun. Ef ekki næst að úthluta tíu styrkjum að þessu sinni verða þeir sem eftir standa veittir í næstu úthlutunum.

Umsóknarfrestur er t.o.m. 1. apríl 2022.


STATEMENT: SUPPORT FOR UKRAINE

The board of the Icelandic Writers’ Union voices its strong support for writers, artists and journalists in Ukraine and emphasizes the importance of freedom of expression and speech at all times. At a time when nations and individuals have to endure tyranny and violence, the message of free expression and creativity is urgent.

Peace, freedom of speech and democratic and open exchange of views play a fundamental role in human society and these evident and valuable rights must never be restricted. The board of the Icelandic Writers’ Union demands a satisfactory solution to be found immediately to the horrible situation that the war-torn people of Ukraine are currently experiencing and that the voices of freedom and peace to be heard loud and clear.


Fjöruverðlaun 2022

Fjöruverðlaunin, bókmenntaverðlaun kvenna, voru afhent við hátíðlega athöfn í Höfða þann 7. mars 2022.

Verðlaunin hlutu:

Í flokki fagurbókmennta:
Merking eftir Fríðu Ísberg (Mál og menning)

Í flokki fræðibóka og rita almenns eðlis:
Sigurður Þórarinsson, mynd af manni
eftir Sigrúnu Helgadóttur (Náttúruminjasafn Íslands)

Í flokki barna- og unglingabókmennta:
Reykjavík barnanna
eftir Margréti Tryggvadóttur og Lindu Ólafsdóttur (Iðunn)

Verðlaunahafar ásamt borgarstjóra og formanni valnefndar.Þetta í sextánda sinn sem Fjöruverðlaunin eru veitt og í áttunda sinn síðan borgarstjóri Reykjavíkur, bókmenntaborgar UNESCO, gerðist verndari verðlaunanna og bauð Dagur B. Eggertsson gesti velkomna. Verðlaunahafar fengu verðlaunagripi gerða af listakonunni Koggu.
 

Rökstuðningur dómnefnda


Merking eftir Fríðu Ísberg

Merking eftir Fríðu Ísberg kallast skýrt á við íslenskan samtíma þó að sagan sé vísindaskáldsaga sem gerist í framtíðinni. Ólíkum persónum er fylgt eftir þar sem sögur þeirra fléttast saman í frásögn sem gefur ekkert eftir í heimspekilegri skoðun sinni á samfélagi okkar. Sagan er frumleg og stíllinn nýskapandi og notkun tungumálsins einkar úthugsuð og áhrifarík og styður við heildstæða persónusköpun verksins.
 

Sigurður Þórarinsson: Mynd af manni eftir Sigrúnu Helgadóttur

Sigurður Þórarinsson: Mynd af manni eftir Sigrúnu Helgadóttur fjallar um ævi og starf eins merkasta vísindamanns Íslands á 20. öld. Saga Sigurðar er samofin sögu jarðfræðirannsókna, jöklaferða og náttúruverndar á Íslandi. Höfundur fer með lesandann í heillandi ferðalag upp á jökla, í gegnum öskulög og inn í kvikuhólf í fylgd með vísindamanninum, söngvaskáldinu og náttúruverndarsinnanum Sigurði. Bókina prýðir aragrúi mynda sem glæða frásögnina lífi og dýpka skilning á efninu.
 

Reykjavík barnanna eftir Margréti Tryggvadóttur og Lindu Ólafsdóttur

Reykjavík barnanna eftir Margréti Tryggvadóttur og Lindu Ólafsdóttur fjallar um sögu Reykjavíkur frá því fyrir landnám til vorra daga. Bókin er ríkulega myndskreytt og er hver opna afmörkuð innsýn í sögu borgarinnar. Höfundar draga fram fjölbreyttan fróðleik og gera skil á skemmtilegan hátt í góðu jafnvægi texta og mynda. Texti Margrétar er hnitmiðaður í auðlesnum efnisgreinum og myndir Lindu eru litríkar og bæta ýmsu við. Bókin vekur löngun til að fræðast meira um höfuðborgina.

Rithöfundasamband Íslands óskar rithöfundum til hamingju með verðlaunin!


Viðurkenningarhafi Hagþenkis fyrir útgáfuárið 2021

Aðalheiður Guðmundsdóttir

Aðalheiður Guðmundsdóttir er Viðurkenningarhafi Hagþenkis fyrir útgáfuárið 2021 fyrir ritin: Arfur aldanna I: Handan hindarfjalls og Arfur aldanna II: Norðvegur. Háskólaútgáfan

Viðurkenning Hagþenkis var veitt 2. mars við hátíðlega athöfn í Þjóðarbókhlöðunni og hana veitti formaður Hagþenkis, Ásdís Thoroddsen, sem felst í árituðu heiðursskjali og 1.250.000 kr. og var settur upp sýningarkassi tengdur ritunum í Þjóðarbókhlöðunni í samstarfi við Ólaf J. Engilbertsson. Tónlist flutti Berta Dröfn Ómarsdóttir og Svanur Vilbergsson.


Viðurkenningarráð, skipað fimm félagsmönnum af mismunandi fræðasviðum stóð að valinu og það skipuðu: Auðunn Arnórsson, Árni Einarsson, Halldóra Kristinsdóttir, Sússanna Margrét Gestsdóttir og Svanhildur Óskarsdóttir 

Úr rökstuðningi ráðsins: 

Undanfarin hundrað ár eða svo hefur hugtakið fornsögur fyrst og fremst vakið í huga Íslendinga þanka um Íslendingasögur, um Sturlungu og um verk Snorra Sturlusonar. En færum við 250 ár aftur í tímann og nefndum fornsögur við þálifandi Íslendinga, er líklegt að það fólk vildi helst ræða um Friðþjóf hinn frækna, Hrólf kraka eða Hrafnistumenn, en síður um til dæmis Guðrúnu, Kjartan og Bolla. Þær sögur sem nú ganga undir samheitinu Fornaldarsögur Norðurlanda (og segja m.a. af þessum hetjum sem ég nefndi) voru óheyrilega vinsælar hér á landi öldum saman og fundu sér ekki einungis farveg í lausamálsfrásögnum heldur einnig í fjölda rímnaflokka. Vaxandi þjóðerniskennd og stýrandi smekkur menntamanna olli því að þessar skemmtibókmenntir urðu eins konar olnbogabörn þegar kom fram á 20. öld, já meira eins og curiosum heldur en fullgildar bókmenntir. En á síðustu 30 árum eða svo hefur orðið gleðilegur viðsnúningur á þessu. Fornaldarsögurnar eru rannsakaðar og ræddar frá sífellt nýjum sjónarhornum og nú hillir meira að segja undir að þær verði aðgengilegar í nýjum útgáfum.

Verkið sem í dag hlýtur Viðurkenningu Hagþenkis sprettur úr þessari spennandi deiglu. Aðalheiður Guðmundsdóttir hefur sinnt rannsóknum á fornaldarsögum og skyldu efni í um aldarfjórðung og hefur öðlast ómetanlega yfirsýn um sögurnar og fyrri rannsóknir á þeim. Í ritinu Arfur aldanna setur hún sér það metnaðarfulla markmið að fjalla á heildstæðan hátt um uppruna fornaldasagna, efnivið, útbreiðslu og bókmenntaleg einkenni. Þetta er ekkert smáræði, því sögurnar draga langan slóða. Rætur þeirra liggja í sameiginlegum germönskum sagnaarfi sem rekja má aftur á þjóðflutningatímann í Evrópu og landfræðilega verður að ferðast bæði suður í álfu og langt í austurveg til þess að ná utan um dreifingu og þróun sagnaminna sem að endingu öðluðust framhaldslíf í íslenskum frásögnum. Bækurnar tvær sem verðlaunaðar eru í dag, Handan Hindarfjalls og Norðvegur, fjalla einmitt um baksvið fornaldarsagnanna á meginlandi Evrópu annars vegar og í Svíþjóð, Noregi og Danmörku hins vegar. Í þeim opnar Aðalheiður lesendum sýn á fjölbreytt og heillandi samanburðarefni, allt frá króníkum á latínu og germönskum hetjukvæðum til útskurðar, vefnaðar og myndsteina. Hún dregur á ljósan hátt saman rannsóknir fyrri fræðimanna (ritaðar á ýmsum tungumálum) um leið og hún segir frá nýjum aðferðum til þess að nálgast þennan arf, til dæmis þeim sem taka mið af kenningum um minni eða um lifandi flutning og áhrif áheyrenda á sköpun söguefnis.

LESA MEIRA