Rithöfundasamband Íslands

The Writers' Union of Iceland

Hannes Pétursson og Steinunn Sigurðardóttir


Hannes Pétursson og Steinunn Sigurðardóttir sæmd heiðursdoktorsnafnbót

Skáldin Hannes Pétursson og Steinunn Sigurðardóttir voru sæmd heiðursdoktorsnafnbót frá Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands í dag.

Á vef Háskólans segir:
Hannes og Steinunn eru meðal okkar merkustu samtímahöfunda. Hannes er bæði ljóðskáld og fræðimaður. Hann kvaddi sér hljóðs með Kvæðabók árið 1955 og meðal annarra ljóðabóka á löngum og farsælum ferli Hannesar eru Stund og staðir (1962), Innlönd (1968), Heimkynni við sjó (1980), 36 ljóð (1983), Eldhylur (1993), Fyrir kvölddyrum (2006) og Haustaugu (2018). Náttúra og saga skipa mikilvægan sess í skáldskap Hannesar og honum hefur auðnast að samþætta hefð og nýjungar á skapandi hátt. Hannes lagði stund á germönsk fræði við háskólana í Köln og Heidelberg í Þýskalandi á árunum 1952–1954. Hann lauk kandídatsprófi í íslenskum fræðum frá Háskóla Íslands árið 1959 og hefur getið sér gott orð sem fræðimaður á því sviði. Í rannsóknum sínum hefur hann einkum fengist við ljóðskáld 19. aldar. Ljóð Hannesar hafa verið þýdd á ýmis mál og hann hefur sjálfur snúið erlendum ljóðum og lausamáli á íslensku.

Steinunn er ljóðskáld og höfundur skáldsagna og leikverka og teljast mörg verk hennar til lykilbóka í íslenskum samtímaskáldskap, m.a. Tímaþjófurinn (1986), Ástin fiskanna (1993) og Sólskinshestur (2005). Hún er jafnframt eitt af þekktustu ljóðskáldum samtímans en meðal ljóðabóka hennar má nefna Kartöfluprinsessuna (1987), Hugástir (1999) og Dimmumót (2019) en í síðastnefndu bókinni fjallar Steinunn um veruleika loftslagsbreytinga. Steinunn fékk Íslensku bókmenntaverðlaunin 1995 fyrir skáldsöguna Hjartastað, Fjöruverðlaunin, bókmenntaverðlaun kvenna árið 2016 fyrir Heiðu – fjalldalabóndann, og ljóðaverðlaun Guðmundar Böðvarssonar árið 2017. Auk þess hlaut hún Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar árið 2014 fyrir störf sín í þágu íslensks máls en í rökstuðningi dómnefndar segir: „Fegurð íslenskrar náttúru er yfir og allt um kring í ljóðheimi Steinunnar og því fer afar vel á því að hún hljóti verðlaun kennd við Jónas Hallgrímsson skáld og náttúrufræðing.“ Steinunn hefur jafnframt kennt ritlist við Háskólann í Strassborg og Háskóla Íslands.

Rithöfundasamband Íslands óskar Hannesi og Steinunni innilega til hamingju með nafnbótina!

Haukur Ingvarsson


Haukur Ingvarsson hlýtur Maístjörnuna

Rithöfundasamband Íslands og Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn veita verðlaun fyrir ljóðabók sem kom út á árinu 2021. Verðlaunin, sem bera heitið Maístjarnan, voru afhent í sjötta sinn við hátíðlega athöfn í Þjóðarbókhlöðunni í dag 18. maí.

Maístjörnuna fyrir ljóðabók ársins 2021 hlýtur Haukur Ingvarsson fyrir bókina:

Menn sem elska menn

Í umsögn dómnefndar um verðlaunabókina segir:

„Í Menn sem elska menn yrkir Haukur Ingvarsson um þunga kroppa og sviflétta anda, um þyngdarkraft alheimsins, kærleikann, sem leggur bönd á efnin og heldur sólum á brautu. Með snjöllu myndmáli skyggnist skáldið um heim allan frá myrku dýpi sjávar til óravídda himingeimsins en hugleiðingar um fótspor á örþunnri skurn yfir djúpinu vekur grun um yfirborð sem getur brostið hvenær sem er. Í ljóðunum birtist þéttur vefur tilvísana til íslenskra bókmennta gegnum aldirnar sem víkkar út merkingarsvið þeirra. Áleitnustu viðfangsefnin og markviss tákn bókarinnar varða ástina, vináttuna og karlmennskuna. Skáldið hvetur okkur til að kafa í ómælisdjúp orða og kennda og eiga stefnumót í anda. Menn sem elska menn er bók sem kallar á endurtekinn lestur og launar þeim sem sinna því kalli ríkulega.“

Haukur Ingvarsson er fæddur í Kaupmannahöfn 1979 og alinn upp í norðurbæ Hafnarfjarðar. Hann lauk doktorsprófi í íslenskum bókmenntum frá Háskóla Íslands árið 2020. Haukur starfaði sem dagskrár­gerðar­maður á Rás 1 frá árinu 2005, lengst af sem einn af umsjónarmönnum og ritstjórum Víðsjár. Um skeið hélt hann úti sínum eigin bókmenntaþætti Glætu en þar fyrir utan gerði hann fjölda þátta og þáttaraða um bókmenntir, menningu og listir.

Eftir Hauk hafa birst ljóð, smásögur og greinar í ýmsum tímaritum og sýnisbókum heima og erlendis. Hann hefur sent frá sér þrjár ljóðabækur en fyrir aðra bók sína Vistarverur hlaut hann bókmennta­verðlaun Tómasar Guðmundssonar árið 2018. Sú bók var einnig tilnefnd til Maístjörnunnar það ár. Þá hefur hann skrifað eina skáldsögu, Nóvember 1976, og fræðibækurnar Andlitsdrættir samtíðarinnar: Síðustu skáldsögur Halldórs Laxness og Fulltrúi þess besta í bandarískri menningu: Orðspor Williams Faulkners í íslensku menningarlífi 1930-1960. Haukur ritstýrir Skírni, tímariti hins íslenska bókmennta­félags, ásamt Ástu Kristínu Benediktsdóttur. Fyrr á þessu ári hlaut Haukur nýdoktorastyrk frá Háskóla Íslands til þriggja ára.

Haukur er kvæntur Steinunni Rut Guðmundsdóttur og saman eiga þau drengina Hrafnkel, Ragnar Úlf og Ingvar Flóka.

Gjaldgengar voru allar útgefnar íslenskar ljóðabækur ársins 2021 sem skilað var í skylduskil til Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns og fékk dómnefnd þær til umfjöllunar. Dómnefnd skipa Soffía Auður Birgisdóttir fyrir hönd Rithöfundasambandsins og Birgir Freyr Lúðvígsson fyrir hönd Landsbókasafnsins. Maístjarnan er einu verðlaun á Íslandi sem veitt eru fyrir útgefna ljóðabók. Verðlaununum er ætlað að vekja sérstaka athygli á blómlegri ljóðabókaútgáfu á Íslandi sem og mikilvægi þess að ljóðabókum sé skilað í skylduskil til Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns og varðveitist þannig sem hluti af menningararfi þjóðarinnar. Verðlaunafé er 350 þúsund krónur. Frumkvæði að stofnun Maístjörnunnar átti Kári Tulinius, skáld og rithöfundur.

Tilnefndar voru bækurnar:

Kona lítur við eftir Brynju Hjálmsdóttur. Útgefandi: Una útgáfuhús
Menn sem elska menn
 eftir Hauk Ingvarsson. Útgefandi: Mál og menning
Klettur – Ljóð úr sprungum
 eftir Ólaf Svein Jóhannesson. Útgefandi: Bjartur
Laus blöð
 eftir Ragnar Helga Ólafsson. Útgefandi: Bjartur
Verði ljós, elskan
 eftir Soffíu Bjarnadóttur. Útgefandi Angústúra
Tanntaka 
eftir Þórdísi Helgadóttur. Útgefandi: Mál og menning

Rithöfundasamband Íslands óskar Hauki innilega til hamingju með viðurkenninguna!


Maístjarnan veitt 18. maí

Rithöfundasamband Íslands og Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn bjóða félagsmönnum RSÍ að vera viðstaddir afhendingu Maístjörnunnar vegna ársins 2021 en Maístjarnan verður veitt í sjötta sinn við athöfn í Þjóðarbókhlöðunni miðvikudaginn 18. maí, kl. 15.

Dagskrá:

Ingibjörg Steinunn Sverrisdóttir landsbókavörður býður gesti velkomna og kynnir dagskrá afhendingar ljóðaverðlaunanna.

Dómnefnd, Soffía Auður Birgisdóttir og Birgir Freyr Lúðvígsson, kynnir verðlaunahafann og flytur rökstuðning fyrir vali sínu.

Landsbókavörður afhendir verðlaunin.

Verðlaunahafinn flytur ávarp.

Flutt verða  ljóð úr verðlaunabókinni.

Sýning á verðlaunabókinni og fyrri verkum höfundar opnuð.

Léttar veitingar.


Tilnefnt til Maístjörnunnar 2021

Soffía Bjarnadóttir, Una Ragnarsdóttir f.h. Ragnars Helga, Haukur Ingvarsson, Sigþrúður Gunnarsdóttir f.h. Þórdísar Helgadóttur, Brynja Hjálmsdóttir og Ólafur Sveinn Jóhannesson.

Maístjarnan, ljóðabókaverðlaun Rithöfundasambands Íslands og Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns verða veitt í sjötta sinn í maí.

Tilnefningar til Maístjörnunnar vegna ljóðabókar útgefinnar 2021 voru kynntar við athöfn í Gunnarshúsi í dag.

Tilnefndar bækur eru:

Kona lítur við eftir Brynju Hjálmsdóttur. Útgefandi: Una útgáfuhús

Menn sem elska menn eftir Hauk Ingvarsson. Útgefandi: Mál og menning

Klettur – Ljóð úr sprungum eftir Ólaf Svein Jóhannesson. Útgefandi: Bjartur

Laus blöð eftir Ragnar Helga Ólafsson. Útgefandi: Bjartur

Verði ljós, elskan eftir Soffíu Bjarnadóttur. Útgefandi Angústúra

Tanntaka eftir Þórdísi Helgadóttur. Útgefandi: Mál og menning

Tilnefndar bækur eru allar til sýnis í anddyri Þjóðarbókhlöðunnar.

Gjaldgengar voru allar útgefnar íslenskar ljóðabækur ársins 2021 sem skilað var til Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns og fékk dómnefnd þær til umfjöllunar. Dómnefnd skipa Soffía Auður Birgisdóttir fyrir hönd Rithöfundasambandsins og Birgir Freyr Lúðvígsson fyrir hönd Landsbókasafnsins.

Verðlaunin verða veitt við athöfn í Þjóðarbókhlöðunni þann 18. maí. Verðlaunafé er 350 þúsund krónur. 

Maístjarnan er einu verðlaun á Íslandi sem veitt eru eingöngu fyrir útgefna íslenska ljóðabók. Verðlaununum er ætlað að vekja sérstaka athygli á blómlegri ljóðabókaútgáfu á Íslandi.


BARNABÓKAVERÐLAUN REYKJAVÍKURBORGAR 2022

Verðlaunahafar ásamt formanni dómnefndar og borgarstjóra.

Linda Ólafsdóttir, Sverrir Norland og Kristín Helga Gunnarsdóttir hljóta Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar 2022 fyrir bækurnar Reykjavík barnannaEldhugar: Konurnar sem gerðu aðeins það sem þær vildu; og Ótemjur.

Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar voru veitt í Höfða í dag á síðasta vetrardegi, miðvikudaginn 20. apríl. Borgarstjórinn í Reykjavík, Dagur B. Eggertsson, afhenti verðlaunin við hátíðlega athöfn og Chadman Naimi, 12 ára nemandi við Tónskóla Sigursveins, flutti einleiksverk á píanó.

Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar eru veitt í þremur flokkum bóka fyrir börn og ungmenni, flokki bóka frumsaminna á íslensku, flokki myndlýsinga og flokki þýðinga. Þetta eru elstu barnabókverðlaun landsins en þau voru fyrst veitt sem Barnabókaverðlaun fræðsluráðs Reykjavíkur árið 1973. Árið 2016 voru Dimmalimm verðlaunin og Barnabókaverðlaun Reykjavíkur sameinuð og urðu flokkarnir þá þessir þrír. Verðlaunaféð er 350.000 kr. í hverjum flokki.

FJÖLBREYTT BARNABÓKAFLÓRA

Í ár fékk dómnefndin yfir 100 bækur til skoðunar. Fimm bækur voru tilnefndar í hverjum flokkanna þriggja og nú er ljóst hvaða þrjár bækur hljóta verðlaunin í ár. Dómnefnd verðlaunanna skipuðu þau Tinna Ásgeirsdóttir, sem var formaður, Ásmundur Kristberg Örnólfsson, Guðrún Lára Pétursdóttir, Karl Jóhann Jónsson og Valgerður Sigurðardóttir.

Linda Ólafsdóttir hlýtur Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar í flokki myndlýsinga fyrir bókina Reykjavík barnanna. Iðunn gefur út.

Sverrir Norland hlýtur Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar í flokki þýðinga fyrir þýðingu sína á bókinni Eldhugar: Konurnar sem gerðu aðeins það sem þær vildu eftir Pénélope Bagieu. AM forlag gefur út.

Kristín Helga Gunnarsdóttir hlýtur Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar í flokki frumsaminna bóka fyrir bókina Ótemjur. Bjartur gefur út.

Rithöfundasamband Íslands óskar höfundunum innilega til hamingju með verðlaunin!

Rökstuðning dómnefndar má lesa hér.


TILNEFNT TIL BARNABÓKAVERÐLAUNA REYKJAVÍKURBORGAR

Fimmtán bækur voru í dag tilnefndar til Barnabókaverðlauna Reykjavíkurborgar en verðlaunin verða hefðinni samkvæmt veitt í Höfða á síðasta vetrardag, 20. apríl, fyrir frumsamda barna- og ungmennabók, myndlýsingar og þýðingu. Tilnefningarathöfnin fór fram á Torginu í Borgarbókasafninu í Grófinni. Skúli Helgason, formaður skóla- og frístundaráðs, flutti ávarp og dómnefnd kynnti tilnefndar bækur og rökstuðning fyrir valinu.

Eftirtaldir rithöfundar, myndhöfundar og þýðendur eru tilnefndir til Barnabókaverðlauna Reykjavíkurborgar 2022 fyrir eftirtaldar bækur.

BARNA- OG UNGMENNABÆKUR FRUMSAMDAR Á ÍSLENSKU:

–        Þórunn Rakel Gylfadóttir: Akam, ég og Annika. Angústúra gefur út.

–        Arndís Þórarinsdóttir: Bál tímans. Mál og menning gefur út.

–        Hilmar Örn Óskarsson: Holupotvoríur alls staðar. Bókabeitan gefur út.

–        Kristín Helga Gunnarsdóttir: Ótemjur. Bjartur gefur út.

–        Margrét Tryggvadóttir: Sterk. Mál og menning gefur út.

MYNDLÝSINGAR Í BARNA- OG UNGMENNABÓKUM:

–        Rán Flygenring: Koma jól? Angústúra gefur út.

–        Áslaug Jónsdóttir: Skrímslaleikur. Mál og menning gefur út.

–        Hallveig Kristín Eiríksdóttir: Fuglabjargið. Bókabeitan gefur út.

–        Linda Ólafsdóttir: Reykjavík barnanna. Iðunn gefur út.

–        Elísabet Rún: Sólkerfið. JPV gefur út.

ÞÝDDAR BARNA- OG UNGMENNABÆKUR:

–        Guðni Kolbeinsson: Kynjadýr í Buckinghamhöll. Bókafélagið gefur út.

–        Jón St. Kristánsson: Seiðmenn hins forna. Angústúra gefur út.

–        Sólveig Sif Hreiðarsdóttir: Á hjara veraldar. Kver gefur út.

–        Sverrir Norland: Eldhugar. AM forlag gefur út.

–        Sverrir Norland: Kva es þak? AM forlag gefur út.

Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar eiga sér lengsta sögu barnabókaverðlauna á landinu og er helsta markmið þeirra að vekja athygli á því sem vel er gert í bókaútgáfu fyrir unga lesendur svo og að hvetja þá til bóklesturs.

Dómnefnd verðlaunanna í ár er skipuð Tinnu Ásgeirsdóttur formanni, Ásmundi Kristberg Örnólfssyni, Guðrúnu Láru Pétursdóttur, Karli Jóhanni Jónssyni og Valgerði Sigurðardóttur.

Rökstuðning fyrir vali dómnefndar má finna á heimasíðu Bókmenntaborgar.


Tilnefningar til barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2022

13 norrænar myndabækur, unglingabækur og ljóðabækur eru tilnefndar til barna- og unglingabókmennta- verðlauna Norðurlandaráðs 2022. Ærslafull frásagnargleði, sérstæð kímni og angurværð skína í gegn í hinum tilnefndu bókum, þar sem fjölbreyttir möguleikar myndabókaformsins eru áberandi. Verðlaunin verða afhent í Helsinki þann 1. nóvember.

Bækurnar sem tilnefndar eru í ár fjalla meðal annars um erfið viðfangsefni á borð við fordóma og uppreisn æru og leiða okkur í gegnum stríð og hryðjuverkaárásir áleiðis að von og gagnkvæmum skilningi. Einnig er fjallað um kynhlutverk, sjálfsmynd og uppruna út frá rökvísi barna – og ævaforn kálfskinnshandrit öðlast nýtt líf. Að auki er náttúru, vistfræði og óvissu og ringulreið ástarinnar lýst á þeysispretti.

Tvær íslenskar bækur eru tilnefndar:

Bál Tímans – Örlagasaga Möðruvallabókar í sjö hundruð ár eftir Arndís Þórarinsdóttur. Myndir eftir Sigmund B. Þorgeirsson. Útgefandi: Mál og menning, 2021.

Alexander Daníel Hermann Dawidsson: Bannað að eyðileggja eftir Gunnar Helgason. Myndir eftir Rán Flygenring. Útgefandi: Mál og menning, 2021.

Hér má sjá lista yfir allar tilnefndar bækur.

Rithöfundasamband Íslands óskar höfundum til hamingju með tilnefningarnar!


Fjöruverðlaun 2022

Fjöruverðlaunin, bókmenntaverðlaun kvenna, voru afhent við hátíðlega athöfn í Höfða þann 7. mars 2022.

Verðlaunin hlutu:

Í flokki fagurbókmennta:
Merking eftir Fríðu Ísberg (Mál og menning)

Í flokki fræðibóka og rita almenns eðlis:
Sigurður Þórarinsson, mynd af manni
eftir Sigrúnu Helgadóttur (Náttúruminjasafn Íslands)

Í flokki barna- og unglingabókmennta:
Reykjavík barnanna
eftir Margréti Tryggvadóttur og Lindu Ólafsdóttur (Iðunn)

Verðlaunahafar ásamt borgarstjóra og formanni valnefndar.Þetta í sextánda sinn sem Fjöruverðlaunin eru veitt og í áttunda sinn síðan borgarstjóri Reykjavíkur, bókmenntaborgar UNESCO, gerðist verndari verðlaunanna og bauð Dagur B. Eggertsson gesti velkomna. Verðlaunahafar fengu verðlaunagripi gerða af listakonunni Koggu.
 

Rökstuðningur dómnefnda


Merking eftir Fríðu Ísberg

Merking eftir Fríðu Ísberg kallast skýrt á við íslenskan samtíma þó að sagan sé vísindaskáldsaga sem gerist í framtíðinni. Ólíkum persónum er fylgt eftir þar sem sögur þeirra fléttast saman í frásögn sem gefur ekkert eftir í heimspekilegri skoðun sinni á samfélagi okkar. Sagan er frumleg og stíllinn nýskapandi og notkun tungumálsins einkar úthugsuð og áhrifarík og styður við heildstæða persónusköpun verksins.
 

Sigurður Þórarinsson: Mynd af manni eftir Sigrúnu Helgadóttur

Sigurður Þórarinsson: Mynd af manni eftir Sigrúnu Helgadóttur fjallar um ævi og starf eins merkasta vísindamanns Íslands á 20. öld. Saga Sigurðar er samofin sögu jarðfræðirannsókna, jöklaferða og náttúruverndar á Íslandi. Höfundur fer með lesandann í heillandi ferðalag upp á jökla, í gegnum öskulög og inn í kvikuhólf í fylgd með vísindamanninum, söngvaskáldinu og náttúruverndarsinnanum Sigurði. Bókina prýðir aragrúi mynda sem glæða frásögnina lífi og dýpka skilning á efninu.
 

Reykjavík barnanna eftir Margréti Tryggvadóttur og Lindu Ólafsdóttur

Reykjavík barnanna eftir Margréti Tryggvadóttur og Lindu Ólafsdóttur fjallar um sögu Reykjavíkur frá því fyrir landnám til vorra daga. Bókin er ríkulega myndskreytt og er hver opna afmörkuð innsýn í sögu borgarinnar. Höfundar draga fram fjölbreyttan fróðleik og gera skil á skemmtilegan hátt í góðu jafnvægi texta og mynda. Texti Margrétar er hnitmiðaður í auðlesnum efnisgreinum og myndir Lindu eru litríkar og bæta ýmsu við. Bókin vekur löngun til að fræðast meira um höfuðborgina.

Rithöfundasamband Íslands óskar rithöfundum til hamingju með verðlaunin!


Tilnefningar til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2022

Elísabet Jökulsdóttir og Steinar Bragi Guðmundsson eru tilnefnd til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2022.

Elísabet fyrir bók sína Aprílsólarkuldi. Skáldsaga. Forlagið, 2020.

Steinar Bragi Guðmundsson fyrir skáldsöguna Truflunin. Forlagið, 2020.

Ást, vald og það að vera utangarðs eru á meðal gegnumgangandi stefja í hinum 14 norrænu skáldsögum og ljóðabókum sem tilnefndar eru til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2022. Bækurnar sem tilnefndar eru í ár koma frá öllum norrænu löndunum og málsvæðunum. Verðlaunabókin verður kynnt í Helsingfors 1. nóvember.

Hér má lesa um aðrar tilnefndar bækur.

Umsögn dómnefndar um Aprílsólarkulda:

„Dáinn. Dáinn. Hvernig gat það verið. Hvað þýddi þetta orð.“ Þannig hefst skáldævisaga Elísabetar Jökulsdóttur Aprílsólarkuldi (Eitthvað alveg sérstakt). Frásögn um ást og geðveiki og huggun. Í bókinni beitir Elísabet aðferðum skáldskaparins til að rannsaka hvað gerðist þegar hún seint á áttunda áratug síðustu aldar, þá um tvítugt, veiktist af geðhvörfum og upplifði vanmátt og skömm sem hún hefur notað stóran hluta ævinnar til að rannsaka og miðla í list sinni.

Sagan hverfist um Védísi sem á þröskuldi fullorðinsáranna verður fyrir því áfalli að missa föður sinn, en reynist ófær um takast á við þær tilfinningar sem því fylgja. Andlát föðurins neyðir hana nefnilega ekki aðeins til að horfast í augu við forgengileika manneskjunnar heldur það hvernig uppvöxturinn á alkóhólíseruðu heimili með tilheyrandi feluleikjum út á við, óreiðu, hildarleik, æðisköstum móðurinnar og fjarlægð í samskiptum hefur mótað persónuleika hennar og tilfinningalíf. Hún er alin upp við það að nota tungumálið til að blekkja sjálfa sig og aðra, til að segja ekki það sem hún meinar og meina ekki það sem hún segir. Frá blautu barnsbeini hefur henni þannig verið innrætt að bæla niður allar tilfinningar og frysta, því ekkert er eins hættulegt og tilfinningar. Treginn sem herjar á Védísi eftir föðurmissinn er þannig litaður reiði og eftirsjá, sem hún veit ekki hvernig hún á að höndla eða tjá. Loks flækist það fyrir henni að syrgja föður sem henni finnst að hún hafi í reynd misst löngu áður – eða mögulega aldrei átt. Stærsta sorgin í lífi Védísar felst nefnilega í því að hún fékk aldrei að upplifa áhyggjuleysi æskunnar sem barn.

Stuttu eftir andlátið og í taugaáfallinu miðju kynnist Védís Kjartani og ástarsamband þeirra bræðir klakabrynjuna innra með henni þannig að hún lætur undan afli tilfinninganna. Samband þeirra einkennist af ástsýki og stöðugri vímuefnaneyslu með tilheyrandi þráhyggjuhugsunum, ótta, kvíða og þunglyndi.

Lýsing Elísabetar á því hvernig Védís missir smám saman tengslin við raunveruleikann vegna veikinda sinna og telur sig heyra og sjá margvísleg skilaboð í umhverfinu sem eru öðrum hulin er meistaralega vel útfærð. Lausbeislaður stíllinn og húmorinn sem á yfirborðinu ríkir geymir þunga undiröldu. Naívur og tær textinn kallast í fagurfræði sinni sterklega á við barnið sem Védís fékk aldrei að vera, en reynir í vanmætti sínum að hlúa að. Elísabet fjallar á tilfinninganæman og ljóðrænan hátt um vandmeðfarið efni og gæðir efnivið sinn töfrum sem lætur engan ósnortinn.

Elísabet Jökulsdóttir (f. 1958) hefur á þeim rúmlega þrjátíu árum sem liðin eru frá því hún sendi frá sér sína fyrstu bók verið mikilvæg rödd í íslensku samfélagi. Með einlægni, innsæi, húmor og hispursleysi hefur hún snert við lesendum og beint sjónum að vandasömum viðfangsefnum á borð við ástina í öllum sínum myndum, fíkn af ýmsum toga, ofbeldi í samskiptum, geðveiki og geðheilbrigði. Hún hefur sent frá sér ljóð, örsögur, smásögur, skáldsögur og leikrit. Samhliða ritstörfum hefur Elísabet framið ýmsa gjörninga og var heiðurslistamaður alþjóðlega myndlistartvíæringsins Sequences haustið 2021. Elísabet hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin 2020 fyrir Aprílsólarkulda. Hún hefur tvisvar hlotið Fjöruverðlaunin, bókmenntaverðlaun kvenna. Fyrst árið 2007 fyrir skáldævisöguna Heilræði lásasmiðsins, sem er nokkurs konar systurbók Aprílsólarkulda, og síðan árið 2015 fyrir ljóðabókina Ástin ein taugahrúga: Enginn dans við Ufsaklett, en ári síðar var hún í fyrsta sinn tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs fyrir sömu bók.

Umsögn dómnefndar um Truflunina:

Skáldsagan Truflunin fjallar um lítið svæði sem er öðruvísi en umheimurinn. Það getur að mati yfirvalda ekki gengið. Þetta er framtíðarsaga og söguformið er notað til þess að brjóta þverstæður samtímans til mergjar.

Hið truflaða svæði nær yfir þær götur í miðbæ Reykjavíkur sem bera nöfn hinna fornu guða ásatrúarmanna, Óðinsgata skiptir þar að sjálfsögðu miklu máli, einnig Óðinstorg og Óðinsvé. Utan við hið truflaða svæði er umheimurinn og hann er fjölþjóðlegur, þar skiptir þjóðerni litlu sem engu. Aðalpersónan hefur unnið sér harðsóttan rétt til þess að fara gegnum leyndardómsfullan hjúp eða ormagöng og inn á hið truflaða svæði. Erindi aðalpersónunnar inn í Truflunina er að leita skýringa á því sem á seyði er. Því fer þó fjarri að allt sé sem sýnist í þeirri sendiför. Veraldir í þessari sögu eru lengst af tvær, umheimurinn og truflunin. Í þeim líður tíminn ekki á sama hraða en flest annað er óljóst. Truflunin er samkvæmt textanum hola í umheiminum sem opnaðist inn í söguna 5. mars 2030.

Hið eiginlega viðfangsefni þessarar bókar er að í tölvuvæddum heimi hefur vitund okkar verið teygð yfir allan umheiminn, tengd alnetinu og þannig séð erum við öll að breytast í örlítið mismunandi útgáfur af eins konar samvitund. Sérkenni okkar sópast burtu með straumi tækninnar. Hver treystir sér til að staðhæfa að hann sé einstakur eða frábrugðinn öðrum? Samt hefur einstaklingshyggja ef til vill aldrei risið jafn hátt og hún gerir nú. Þverstæður nútímans láta ekki að sér hæða.

Spurningarnar sem vakna við lestur þessarar bókar eru viðamiklar meginspurningar, meðal annars um vísindasiðgæðið og nútímann. Hér eru nokkur slík dæmi: Sumar þeirra eru vel kunnar: hvenær verður gervigreindin svo öflug að hún verði ekki skilin frá greind mannsins. Ef eftirlíkingin af greind mannsins verður alfullkomin, verður hún þá ekki jafnframt fullkomnari en sú greind sem hver og einn hefur fengið úthlutað? Í kvikmyndum og bókmenntum er oft lýst átökum milli manna annars vegar og ofurtölva/sæborga eða geimvera hins vegar. Þeirri viðureign lýkur yfirleitt með naumum sigri mannsandans sem byggist oftast á hæfileika mannsins til þess að elska og trúa – en hver segir að ekki sé hægt að læra það líka?

Það er svolítið fyndið að þessi gamli bæjarhluti í Reykjavík skuli fá það hlutverk í bókinni að verða tímaskekkjan og truflunin í veröldinni. Kannski höfum við Íslendingar verið tímaskekkja og truflun lengur en okkur grunar.

Steinar Bragi Guðmundsson (f. 1975) hefur gefið út margar bækur og telst til virtustu höfunda Íslands.

„Hvernig lýsir maður því þegar manneskja fer úr einum heimi yfir í annan, sem er alveg eins, og það er engin leið til baka?“ Þetta sagði rithöfundurinn Steinar Bragi um skáldsögu sína, Truflunina.

Rithöfundasamband Íslands óskar Elísabetu og Steinari Braga til hamingju með tilnefninguna!


Íslensku þýðingaverðlaunin 2022 afhent á Gljúfrasteini

Íslensku þýðingaverðlaunin 2022 voru veitt á Gljúfrasteini laugardaginn 19. febrúar sl. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, afhenti verðlaunin.

Guðrún C. Emilsdóttir formaður ÞOT, Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands, Þorgerður Agla Magnúsdóttir útgefandi, Gunnar Þorri Pétursson þýðandi og María Rán Guðjónsdóttir útgefandi.


Í ár hlaut Gunnar Þorri Pétursson verðlaunin fyrir þýðingu sína Tsjernobyl-bænin, framtíðarannáll eftir Svetlana Aleksíevítsj. Angústúra gefur út.


Umsögn dómnefndar er eftirfarandi:


Verkið samanstendur fyrst og fremst af frásögnum fórnarlamba slyssins í Tsjernobyl sem hingað til hefur of lítill gaumur verið gefinn, en þessi aðferð er í anda annarra verka höfundarins, Svetlönu Aleksíevítsj, sem áður hefur skrifað um sovéskar konur sem börðust í síðari heimsstyrjöldinni, frásagnir barna úr því stríði og hernaðarbrölt Sovétmanna í Afganistan. Þeir sem segja sögu sína hér eru af ýmsum meiði, fræðimenn, eiginkonur þeirra sem verst urðu úti, foreldrar sem horfa á börn sín veikjast og deyja, flóttafólk sem sneri aftur, fólk sem flutt var með valdi af hættusvæðinu, fólk sem vildi ekki yfirgefa jarðir og búfénað, börn, hermenn sem sáu um hreinsun og svo „hetjurnar”.


Þetta er ekki predikun, en af frásögnunum sést að erindið er brýnt og að ekki má gleyma atburðunum í Tsjernobyl, því áhrifa þeirra gætir enn og þeir munu hafa áhrif um ókomna tíð. Verkið segir skelfilega sögu, ekki einungis um atburðinn sjálfan, heldur og um það sem fylgdi í kjölfarið og ekki síst um vald og valdsmenn sem bregðast þjóð sinni með lygum og þöggun þannig að öll viðbrögð fólksins verða ómarkviss og tilviljanakennd.


„Sagnfræði sem lendir á milli þilja, ” eins og höfundur verksins orðar það. Undirtitill verksins „framtíðarannáll”, vekur skelk og ekki síður einkunnarorðin, „Við erum úr lofti en ekki úr jörðu komin”. Það boðar ekki gott að vera úr loftinu sem Tsjernobyl andaði yfir okkur.


Hér skilar Gunnar Þorri góðu verki. Hann þarf að setja sig í spor allra þeirra ólíku aðila sem hér segja sögu sína og túlka stöðu þeirra og tilfinningar í gegnum málfarið. Hann gerir það af mikilli þekkingu og góðu innsæi sem sést best af því hvernig hann miðlar röddum verksins og af blæ orðanna skynjum við ólíkar persónur. Hér er ekki um oftúlkun að ræða, heldur raunsæja lýsingu án nokkurrar yfirborðsmennsku. Verkið sýnist auðvelt í framkvæmd, en mikla kunnáttu þarf til að þekkja slík blæbrigði og mikið þolgæði þegar lýst er svo hrikalegum atburðum. Gunnar Þorri vinnur verk sitt af einurð.

<iframe width="560" height="315" src="https://www.youtube.com/embed/JR_wettxcuc" title="YouTube video player" frameborder="0" allow="accelerometer; autoplay; clipboard-write; encrypted-media; gyroscope; picture-in-picture" allowfullscreen></iframe>

Aðrir tilnefndir þýðendur voru:

Ásdís R. Magnúsdóttir, fyrir þýðingu sína Fríða og dýrið, franskar sögur og ævintýri fyrri alda. Ýmsir höfundar. Háskólaútgáfan gefur út.

Hallgrímur Helgason, fyrir þýðingu sína Hjartað mitt. Höfundar Jo Witek og Christine Roussey. Drápa gefur út.

Jóhann Hauksson, fyrir þýðingu sína Rannsóknir í heimspeki. Höfundur Ludwig Wittgenstein. Háskólaútgáfan gefur út.

Jón St. Kristjánsson, fyrir þýðingu sína Glæstar vonir. Höfundur Charles Dickens. Mál og menning gefur út.

Jón Hallur Stefánsson, fyrir þýðingu sína Ef við værum á venjulegum stað. Höfundur Juan Pablo Villalobos. Angústúra gefur út.

Sólveig Sif Hreiðarsdóttir, fyrir þýðingu sína Á hjara veraldar. Höfundur Geraldine McCaughrean. Kver gefur út.

Íslensku þýðingaverðlaunin, sem Bandalag þýðenda og túlka, Rithöfundasamband Íslands og Félag íslenskra bókaútgefenda standa að, voru sett á stofn til að minna á mikilvægi þýðinga fyrir íslenska tungu og menningu og til að heiðra þýðendur sem sinna því vandasama verki að færa okkur vandaðar erlendar bókmenntir á móðurmáli okkar.