Rithöfundasamband Íslands

The Writers' Union of Iceland


Elías Snæland Jónsson látinn

Elías Snæ­land Jóns­son, rit­höf­und­ur og rit­stjóri, er lát­inn, 79 ára að aldri. Hann lést á Land­spít­al­an­um 8. apríl síðastliðinn.

Elías fædd­ist á Skarði í Bjarnar­f­irði á Strönd­um 8. janú­ar 1943. For­eldr­ar hans voru Jón Mika­el Bjarna­son og Hulda Svava Elías­dótt­ir. Ung­ur flutti Elías með for­eldr­um sín­um suður í Njarðvík og ólst þar upp. Stundaði nám við Sam­vinnu­skól­ann á Bif­röst og lauk þaðan prófi árið 1962. Í fram­haldi af því fór hann til náms í blaðamennsku í Nor­egi, sem markaði braut hans til framtíðar. Elías var blaðamaður á Tím­an­um 1964-1973 og rit­stjóri Nýrra þjóðmála 1974-1976. Hann var blaðamaður og rit­stjórn­ar­full­trúi á Vísi 1975-1981 og í fram­haldi af því rit­stjóri Tím­ans 1981-1984. Fór svo til starfa á DV sem aðstoðarrit­stjóri og var til 1997. Var síðan rit­stjóri á Degi til 2001.

Jafn­hliða blaðamennsku skrifaði Elías fjölda bóka af ýms­um toga. Leik­ritið Fjöru­brot fugl­anna var frum­sýnt í Borg­ar­leik­húsi ungs fólks í Dres­den (Thea­ter Junge Generati­on) í þýskri þýðingu 1999. Hann hlaut Íslensku barna­bóka­verðlaun­in fyr­ir Brak og bresti 1993 og saga hans Ná­vígi á hvala­slóð, sem kom út árið 1998, var á heiðurslista barna­bóka­sam­tak­anna IBBY. Skáld­sag­an Draum­ar und­ir gadda­vír kom út 1996.

Einnig skrifaði Elías ým­is­legt um sögu­leg efni. Tók meðal ann­ars sam­an bók­ina Möðru­valla­hreyf­ing­in, en það var klofn­ings­brot úr Fram­sókn­ar­flokkn­um. Er sú bók einnig lýs­ing á mörgu í sam­fé­lagi þess tíma. Þá skrifaði Elías bók­ina Síðasta dag­blaðið á vinstri vængn­um sem fjallaði um út­gáfu Dags í rit­stjóratíð hans. Sem ung­ur maður var Elías virk­ur í starfi Fram­sókn­ar­flokks­ins og síðar Sam­taka frjáls­lyndra og vinstri manna. Þá var hann formaður Blaðamanna­fé­lags Íslands 1972-1973. Elías var félagsmaður í Rithöfundasambandi Íslands frá 1986.

Eft­ir­lif­andi eig­in­kona Elías­ar er Anna Krist­ín Brynj­úlfs­dótt­ir, rit­höf­und­ur og fyrr­ver­andi lat­ínu- og stærðfræðikenn­ari. Syn­ir þeirra eru þrír og barna­börn­in fjög­ur.

Rithöfundasamband Íslands vottar aðstandendum Elíasar samúð.


Guðrún Helgadóttir – minning

Guðrún Helgadóttir. Eitt stærsta nafnið í íslenskri rithöfundastétt og án nokkurs vafa sá barnabókahöfundur sem naut mestra vinsælda og virðingar á meðal lesenda sinna. Fyrsta bók Guðrúnar, Jón Oddur og Jón Bjarni, var ekki fyrr komin út en lesendum varð ljóst að þar var komin rödd sem hafði mikið fram að færa. Hún var bæði skemmtileg, spennandi, fyndin, hugmyndarík og vakti til umhugsunar. En fyrst og síðast var bókin skrifuð af skilningi og virðingu fyrir veruleika og hugmyndaheimi barnanna.

Guðrún gekk í Rithöfundasamband Íslands árið 1976 og var gerð að heiðursfélaga sama sambands 2002. Guðrún hafði miklar og skýrar skoðanir á málefnum listamanna eins og öðrum málum og það var mikils virði að hafa hana innan vébanda Rithöfundasambandsins, því þó að hún gegndi ekki trúnaðarstörfum á vegum RSÍ var hún afar virk sem almennur félagsmaður, var óspör á innsæi sitt og tjáði sig af hispursleysi og skynsemi.

Ferill Guðrúnar sem höfundar var glæsilegur og nú þegar hún fellur frá skilur hún eftir sig háan bunka af verkum sem lifa höfund sinn og vekja ennþá aðdáun, kátínu og meðlíðan með þeim sönnu og ljóslifandi persónum sem hún skóp. Tvíburarnir Jón Oddur og Jón Bjarni urðu ódauðlegir í þremur bókum, Hafnarfjarðarþríleikurinn Sitji guðs englar á eftir að heilla og verma börn og fullorðna um ókomna tíð og leikritið Óvitar er orðið sígilt leikverk í íslensku leikhúsi. Og þetta er aðeins brot af höfundarverki Guðrúnar, þar sem fjölbreytnin, mannskilningurinn og húmorinn eiga sér engin takmörk.

Þegar Jón Oddur og Jón Bjarni komu út árið 1974 var ég kominn hátt á tvítugsaldur og hættur að lesa barnabækur. Það hélt ég að minnsta kosti. Þessi bók hafði algjörlega farið framhjá mér, en svo var það samstarfsmaður minn, maður um sjötugt, sem spurði hvort ég hefði lesið bókina hennar Guðrúnar Helgadóttur. Þegar ég svaraði því neitandi sagði hann að það næði ekki nokkurri átt. „Þú átt að lesa almennilegar bækur, drengur,“ sagði hann. Og vegna þess að sami maður hafði skipað mér að lesa Dostojevski, þá tók ég mark á honum og sannfærðist í kjölfarið um að ég mætti alls ekki hætta að lesa barnabækur, því þá væri ég bara að gera sjálfum mér óleik. Það vildi síðan svo skemmtilega til að við Guðrún hittumst í fyrsta sinn á samlestri á kvikmyndahandriti Þráins Bertelssonar um grallarana Jón Odd og Jón Bjarna. Guðrún sagði okkur í upphafi að hún hefði ekkert vit á kvikmyndagerð og ætlaði ekki að skipta sér af nokkrum sköpuðum hlut. Svo sat hún og hlustaði á okkur leikarana leiklesa handritið, hló með okkur og velti vöngum – því auðvitað hafði hún meira vit á því sem framundan var en hún vildi vera láta. Það var Gísli heitinn Halldórsson sem átti síðasta orðið á þessum samlestri. „Ég hafði ekki lesið þessar bækur þegar Þráinn bað mig um að leika í myndinni, svo ég settist inn á lestrarsalinn á Landsbókasafninu og las mig í gegnum þær. Þarna voru virðulegir fræðimenn að glugga í hin og þessi lexíkon og alvaran var allsráðandi allt um kring – og þarna sat leikarafíflið og las barnabækur og hló eins og vitleysingur.“

Leiðir okkar lágu nokkrum sinnum saman eftir þetta. Þegar Guðrún var forseti Alþingis tilheyrði ég hópi manna sem kallaði sig Spaugstofuna og hélt úti vikulegum gamanþætti í Sjónvarpinu. Forseti Alþingis varð oft og iðurlega skotspónn okkar og á tímabili birtist Siggi Sigjóns í hverri viku í gervi Guðrúnar. Ég var svo staddur einhvers staðar í Kringlunni þegar hvöss kvenrödd sagði fyrir aftan mig „Sérðu kvikindið?“ Þegar ég sneri mér við stóð Guðrún þar ásamt dóttur sinni. Við horfðumst í augu stutta stund en skelltum svo bæði uppúr. Hún hafði ýmislegt um það að segja hvernig það væri að vera þekkt persóna í íslensku samfélagi og verða að þola háð og spott gárunga eins og okkar. En hún sagðist hreint ekki geta kvartað, því allt væri þetta fyndið og létti þjóðinni lund – og sjálfri sér ekki síður.

Það var svo eftir frumsýningu á verki eftir mig í Þjóðleikhúsinu sem hún gekk til mín ákveðnum skrefum, tók í höndina á mér og kallaði mig kollega í fyrsta sinn. Þá vildi hún eiga við mig spjall – sem reyndar teygðist aðeins á langinn – um leikritsformið og það hlutskipti að vera leikskáld, en einkum og sér í lagi um þau augnablik þegar einhver sköpun brýst fram af svo miklu fjöri að höfundurinn fær ekki rönd við reist. Þá sagði hún mér að hún hefði skrifað leikritið Óvita á einum degi. „Þetta bara ruddist fram og ég gat ekki hætt fyrr en verkið var allt komið á blað.“

Eins og flestir vita hlaut Guðrún Helgadóttir ótal verðlaun fyrir verk sín og nægir þar að nefna Barnabókaverðlaun fræðsluráðs Reykjavíkur, Menningarverðlaun DV, Bókmenntaverðlaun starfsfólks bókaverslana, Bókaverðlaun barnanna, viðurkenningu rithöfundasjóðs Ríkisútvarpsins og Sögusteininn, heiðursverðlaun IBBY. Mikilvægasta viðurkenningin verður þó ævinlega þeir hugir og hjörtu barna og annarra lesenda sem hún vann með verkum sínum og sú virðing sem hún mun njóta um ókomna tíð fyrir framlag sitt til íslenskra bókmennta.

Rithöfundasamband Íslands þakkar Guðrúnu Helgadóttur fyrir samfylgdina og öll hennar ómetanlegu verk. Aðstandendum sendum við hjartans samúðarkveðjur.

Sjálfur mun ég alla tíð minnast Guðrúnar af hlýju og aðdáun, en einkum og sér í lagi með bros á vör.

Karl Ágúst Úlfsson
formaður Rithöfundasambands Íslands


Elín Pálmadóttir látin

Elín Pálma­dótt­ir blaðamaður og rithöfundur er lát­in, 95 ára að aldri.

Hún var fædd í Reykja­vík 31. janú­ar 1927. Hún lauk stúd­ents­prófi frá Mennta­skól­an­um í Reykja­vík árið 1947 og lagði síðan stund á nám í ensku og frönsku við Há­skóla Íslands og síðar er­lend­is. Þá gekk hún til liðs við ut­an­rík­isþjón­ust­una og starfaði m.a. hjá Sam­einuðu þjóðunum og í sendi­ráðinu í Par­ís. Elín hóf störf sem blaðamaður hjá Vik­unni 1952, en 1958 réðst hún til Morg­un­blaðsins þar sem hún vann þar til hún lét af störf­um fyr­ir ald­urs sak­ir 1997. Hún hlaut heiður­sviðkenn­ingu Blaðamanna­fé­lags­ins 1992, ridd­ara­kross fálka­orðunn­ar 1995 og var sæmd æðstu heiðursorðu Frakk­lands, Lé­gi­on d’honn­e­ur, árið 2015.

Eftir Elínu komu m.a. út bækurnar Gerður: ævisaga myndhöggvara 1985, Fransí bisk­ví um franska Íslands­sjó­menn 1989,en hún var til­nefnd til Íslensku bók­mennta­verðlaun­anna 1990 og kom einnig út á frönsku, og end­ur­minn­ing­arn­ar Eins og ég man það 2003.

Rithöfundasambandið þakkar Elínu samfylgdina og sendir ættingjum hennar samúðarkveðjur.


Heiðursfélagi látin

Guðrún Helgadóttir

Guðrún Helgadóttir, rithöfundur og fyrrverandi þingmaður, er látin 86 ára að aldri. Hún lést í nótt á hjúkrunarheimilinu Mörk í Reykjavík. Guðrún starfaði í stjórnmálum, bæði í borgarstjórn og á Alþingi, en er ekki síst minnst fyrir bækur sínar fyrir börn. Fyrsta bók hennar kom út 1974 og kynnti bræðurna Jón Odd og Jón Bjarna fyrir þjóðinni.

Bækurnar um Jón Odd og Jón Bjarna urðu þrjár talsins en auk þeirra má nefna bækur eins og Sitji guðs englar, Óvitar og bókina um brúðuna Pál Vilhjálmsson. Guðrún hlaut fjölda verðlauna fyrir skrif sín, allt frá því hún fékk barnabókaverðlaun fræðsluráðs Reykjavíkur fyrir frumraun sína Jón Odd og Jón Bjarna 1975 þar til hún fékk Sögusteininn, heiðursverðlaun IBBY árið 2018. Í millitíðinni fékk hún Menningarverðlaun DV, bókmenntaverðlaun starfsfólks bókaverslana, bókaverðlaun barnanna, viðurkenningu rithöfundasjóðs Ríkisútvarpsins og Norrænu barnabókaverðlaunin fyrir bókina Undan illgresinu. Guðrún var gerð heiðursfélagi í Rithöfundasambandi Íslands árið 2002.

Guðrún hlaut stórriddarakross hinnar íslensku fálkaorðu árið 1992.

Rithöfundasamband Íslands þakkar Guðrúnu samfylgdina og sendir fjölskyldu hennar og vinum samúðarkveðjur.


Ólafur Ormsson látinn

Ólaf­ur Orms­son rit­höf­und­ur lést miðviku­dag­inn 27. októ­ber síðastliðinn, 77 ára gam­all.

Ólaf­ur fædd­ist í Reykja­vík 16. nóv­em­ber 1943.  Hann hóf ung­ur ritstörf. Sat meðal ann­ars í rit­stjórn æsku­lýðssíðu Þjóðvilj­ans og var í hópi út­gef­enda og höf­unda að Lyst­ræn­ingj­an­um og tón­list­ar­tíma­rit­inu TT og stóð að bóka­út­gáfu. Hann er höf­und­ur að ljóðabók­um, skáld­sög­um og smá­sagna­söfn­um. Fyrsta ljóðabók hans, Fáfniskver, kom út á ár­inu 1973. Hann skrifaði skál­dævi­sögu í þrem­ur bind­um, Ævin­týraþorpiðBylt­ing­ar­menn og bóhem­ar og Skálda­speg­ill, sem kom út á ár­un­um 2007 til 2013. Eft­ir hann liggja einnig nokk­ur út­varps­leik­rit og smá­sög­ur sem lesn­ar hafa verið upp í Rík­is­út­varp­inu.


Kristín Bjarnadóttir látin

Kristín Bjarnadóttir, ljóðskáld, leikkona og tangódansari, lést í Gautaborg þann 1. október 73 ára gömul.

Ljóð eftir Kristínu birtust fyrst 1979 í Lesbók Morgunblaðsins og safnritinu Nýgræðingar í Ljóðagerð 1970-1981. Seinna stuttar frásagnir og textar fluttir á sviði og í útvarpi. Hún vann við þáttagerð hjá RÚV, meðal annars þáttaröð um skandinavískar samtíðaskáldkonur, í samvinnu við Nínu Björk Árnadóttur. Hún þýddi ljóðabálkinn Ástarsaga aldarinnar og sviðsútgáfu í samvinnu við Kristbjörgu Kjeld.

Kristín gaf út ljóðsöguna Því að þitt er landslagið (1999), Heimsins besti tangódansari (2005) og Ég halla mér að þér og flýg (2007). Einþáttungur hennar Gættu þín var sýndur í Þjóðleikhúsinu 1987

Kristín átti sæti í stjórn Höfundamiðstöðvarinnar Författarcentrum Väst í Gautaborg allt frá árinu 2010, varaformaður frá 2012 og formaður síðan 2017. Innan höfundamiðstöðvarinnar átti hún frumkvæði að stofnun ljóðahópsins PoPP (poeter orkar poetiska projekt) sem kom til Reykjavíkur sumarið 2017 með upplestrardagskrá í samvinnu við kollega og ljóðskáld í Rithöfundasambandi Íslands. Meðal verkefna sem hún átti frumkvæði að og hafði yfirumsjón með er Waters and Harbours in North  – WHiN, 2017 þar sem Bókmenntaborgin Reykjavík var meðal samvinnuaðila.

Rithöfundasamband Íslands þakkar Kristínu samfylgdina og sendir fjölskyldu hennar og vinum samúðarkveðjur.


Álfrún Gunnlaugsdóttir minning

Álfrún Gunnlaugsdóttir heiðursfélagi í Rithöfundasambandi Íslands er fallin frá. Hún var ekki einungis magnaður höfundur, óumdeilanlega framúrskarandi með einstaka rödd, heldur var hún einnig einn fremsti fræðimaður okkar á sviði bókmennta, vel heima í verkum annarra rithöfunda og framandi menningargeirum.

Álfrún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1958 og hélt ári síðar til náms í rómönskum málum og bókmenntum í Barcelona. Hún lauk licenciatprófi (M.A,) frá Háskólanum í Barcelona (1965), öðlaðist rétt til að verja doktorsritgerð ári síðar við sama skóla, og vann að ritgerðinni við Háskólann í Lausanne í Sviss á árunum 1966 -1970. Doktorsritgerð sína varði hún svo við hinn nýstofnaða Óháða háskóla Katalóníuhéraðs 1970

Hún var lektor í almennri bókmenntafræði við Háskóla Íslands 1971-77, síðan dósent í sömu grein og prófessor frá 1988 til 2006 þegar hún lét af störfum.

Eftir Álfrúnu liggur fjöldi skáldverka af ýmsu tagi, smásagnasafn og skáldsögur og oft og einatt hlutu verk hennar verðlaun og viðurkenningar, voru tilnefnd til Íslensku bókmennta¬verð¬laun¬anna, Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs, hlutu bókmenntaverðlaun DV og Fjöruverðlaun, svo eitthvað sé nefnt, auk þess sem Álfrúnu var veitt viðurkenning Rithöfundasjóðs Ríkisútvarpsins.

Álfrún var gerð að heiðursdoktor við Hugvísindasvið Háskóla Íslands árið 2010, og í ávarpi af því tilefni sagði Ástráður Eysteinsson um verk Álfrúnar sem þá voru komin út:

„ … þessar sex bækur búa yfir sterkum höfundareinkennum – í viðfangsefnum, frásagnaraðferðum, persónusköpun og lífssýn. Hér hefur orðið til eitt sérstæðasta höfundarverk íslenskra bókmennta á síðustu áratugum, mótað af samslætti djarfrar framsetningar, tilvistarhyggju og húmanisma. Verk Álfrúnar eru engan veginn öll steypt í sama móti en í þeim öllum er einhver sterkur og seiðandi höfundarkjarni sem við höfum enn ekki gert okkur nema takmarkaða grein fyrir.“

Íslenskir rithöfundar þakka Álfrúnu Gunnlaugsdóttur framlag hennar til íslenskra bókmennta og bókmennta heimsins. Minning hennar mun lengi lifa í þeim glæsilegu verkum sem hún lætur eftir sig.

Karl Ágúst Úlfsson formaður RSÍ


Vilborg Dagbjartsdóttir minning

Vilborg Dagbjartsdóttir skáldkona. Sjaldan segi ég nafn hennar upphátt án þess að titillinn skáldkona fylgi því. Ekki frá því ég fyrst las ljóð hennar í safnhefti um það bil sem ég var að ljúka unglingaskólanámi.

Nú breiðir María ullina sína hvítu

á himininn stóra.

María sem á svo mjúkan vönd

að hirta með englabörnin smáu.

Það hrundu fáein blóm úr vendinum hennar í vor,

þau vaxa síðan við hliðið ljómandi falleg og blá.

Fuglinn sem á hreiður

við lækinn í hlíðinni sunnan við bæinn

er kallaður eftir henni.

Það er Maríuerla.

Þegar ég verð stór og ræ á sjó með pabba

gef ég henni Maríu fyrsta fiskinn minn.

Í kirkjunni er mynd af Maríu

með gull utan um hárið.

Mamma segir að það sé vegna þess

að María á dreng svo undurgóðan.

Ég hafði reyndar oft lesið ljóð sem höfðu vakið hjá mér hugsun og nýjar hugmyndir, en nú olli Vilborg Dagbjartsdóttir skáldkona nýjar gárur í vitundarlífi mínu og ljóðið hennar um Maríu hvarf ekki úr minni. 

Fáeinum árum seinna henti mig það happ að fá að lesa ljóð á sömu samkomu og Vilborg. Þá tókum við tal saman og síðan hlustaði ég agndofa á skáldkonuna fara með ljóðið Morgunverk, þar sem hún segir meðal annars:

Kvöldið eftir bað ég Drottin um rok

í næturhúminu lá ég andvaka

og heyrði kulið vagga greinum plómutrésins

– örlítið hvassara Drottinn minn góður –
bað ég auðmjúk

Hvenær hefur himnafaðirinn skeytt um morgunsult fátæklins?

Enda kom mér ekki í hug að dekstra karlinn

heldur lét það verða mitt fyrsta verk í morgunsárið

að reka sópinn upp í plómutréð

þar sem það slútti yfir vegginn

– ekki samdi Drottinn Jahve boðorðin
handa þjónum vinnukonum eða kvenfólki yfirleitt

Framlag Vilborgar til lífs þessa tiltekna unglings var umtalsvert, en framlagið til íslenskra bókmennta var ekkert minna en magnað og verður seint fullþakkað. Verk hennar eru  ómetanlegar gersemar  sem hún valdi að færa þjóð sinni að gjöf.  Sem ungur höfundur átti ég því láni að fagna að starfa með henni fyrir Rithöfundasamband Íslands snemma á níunda áratug síðustu aldar. Þá vakti það óblendna aðdáun mína hvað hún fylgdist grannt með grasrótinni og var vel heima í verkum yngstu skáldanna. Það var nánast sama hvað nafn bar á góma, titill nýrrar ljóðabókar eða stuttur prósi sem birst hafði í blaði eða tímariti, alltaf vissi Vilborg hvað klukkan sló og gat uppfrætt okkur sem ekki vorum jafnvel með á nótunum. Aðdáun mín á henni stigmagnaðist við samstarf okkar og hefur engan enda tekið.

Nú kveðjum við Vilborgu Dagbjartsdóttur skáldkonu og heiðursfélaga í Rithöfundasambandi Íslands. Hjartans þakkir, kæra Vilborg, fyrir allt það gagn sem þú hefur unnið okkur rithöfundum, okkur lesendum og aðdáendum alls þess sem vel er gert í bókmenntum.

Karl Ágúst Úlfsson formaður Rithöfundasambands Íslands


Vilborg Dagbjartsdóttir skáld og heiðursfélagi RSÍ látin

Vil­borg Dag­bjarts­dótt­ir, skáld­kona og kenn­ari, lést á líkn­ar­deild Land­spít­al­ans, hinn 16. sept­em­ber síðastliðinn, 91 árs að aldri.

Vil­borg fædd­ist á Vest­dals­eyri við Seyðis­fjörð 1930. Hún lauk kenn­ara­prófi frá KÍ 1952, stundaði leik­list­ar­nám 1951-53, nám í bóka­safns­fræði við HÍ 1983 og dvaldi í Skotlandi og Dan­mörku 1953-55. Vil­borg var kenn­ari við Landa­kots­skóla 1952-53 og kenn­ari við Aust­ur­bæj­ar­skóla 1955-2000 er hún lét af störf­um fyr­ir ald­urs sak­ir.

Vil­borg sendi frá sér fjölda ljóða- og barna­bóka en þýddi auk þess hátt á fimmta tug barna- og ung­linga­bóka og rit­stýrði bók­um. Tvær ævi­sög­ur Vil­borg­ar hafa komið út: Mynd af konu, eft­ir Krist­ínu Mar­ju Bald­urs­dótt­ur 2000, og Úr þagn­ar­hyl, eft­ir Þor­leif Hauks­son 2011.

Vil­borg var formaður Rit­höf­unda­fé­lags Íslands, sat í stjórn Stétt­ar­fé­lags ís­lenskra barna­kenn­ara, Rit­höf­unda­sam­bands Íslands og Menn­ing­ar- og friðarsam­taka ís­lenskra kvenna. 

Hún var heiðurs­fé­lagi Rit­höf­unda­sam­bands Íslands frá 1998, heiðurs­launa­hafi Alþing­is til lista­manna og var sæmd ridd­ara­krossi ís­lensku fálka­orðunn­ar fyr­ir fræðslu- og ritstörf árið 2000.

Rithöfundasamband Íslands þakkar Vilborgu samfylgdina og sendir fjölskyldu hennar og vinum samúðarkveðjur.


Álfrún Gunnlaugsdóttir heiðursfélagi látin

Álfrún Gunnlaugsdóttir rithöfundur lést í Reykjavík 15. september s.l. á 84. aldursári.

Álfrún var fædd í Reykjavík 18. mars 1938. Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1958 og hélt síðan í bókmenntafræði- og heimspekinám til Katalóníu á Spáni. Hún lauk Lic. en fil. y en letras-prófi frá Universidad de Barcelona árið 1965 og Dr. Phil.-prófi frá Universidad Autónoma de Barcelona árið 1970. Álfrún vann að doktorsritgerð við Háskólann í Lausanne í Sviss 1966-70.  Ritgerðin ber titilinn Tristán en el Norte og kom út hjá Stofnun Árna Magnússonar árið 1978. 

Álfrún var lektor í almennri bókmenntafræði við Háskóla Íslands 1971-77 og var hún fyrsta konan sem ráðin var í fasta stöðu hjá heimspekideild háskólans. Hún var dósent í sömu grein 1977-87 og prófessor frá 1988 til 2006 þegar hún lét af störfum. Á haustmisseri 2002 gegndi hún einnig stöðu skorarformanns við bókmennta- og málvísindaskor heimspekideildar HÍ.

Álfrún hefur sent frá sér átta skáldverk, fyrst smásagnasafnið Af manna völdum. Tilbrigði við stef 1982 og síðan hafa komið út eftir hana sjö skáldsögur. Álfrún hlaut bókmenntaverðlaun DV 1985 fyrir aðra bók sína, skáldsöguna Þel. Þrisvar hafa skáldsögur hennar verið tilnefndar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs: Hringsól , Hvatt að rúnum og Yfir Ebrofljótið. Sú síðastnefnda var einnig tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna árið 2001 sem og skáldsagan Rán árið 2008. Fyrir Rán hlaut hún bæði Menningarverðlaun DV í bókmenntum og Fjöruverðlaunin. Álfrún hlaut Rithöfundaverðlaun Ríkisútvarpsins árið 2001.

Álfrún hefur þýtt eina skáldsögu úr spænsku  og einnig skrifað greinar í fræðirit. Verk eftir hana hafa verið þýdd á erlend tungumál.

Álfrún gerðist félagi í Rithöfundasambandinu árið 1985. Hún  var gerð að heiðursdoktor við íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands 1. desember 2010 og hún var heiðruð með Riddarakross hinnar íslensku Fálkaorðu fyrir framlag til íslenskra bókmennta og kennslu bókmennta á háskólastigi 1. janúar 2018. 

Álfrún var gerð að heiðursfélaga Rithöfundasambands Íslands árið 2014.

Rithöfundasamband Íslands þakkar Álfrúnu samfylgdina og sendir ættingjum hennar og vinum samúðarkveðjur.