Rithöfundasamband Íslands

The Writers' Union of Iceland


Um starfslaun listamanna

Pétur Gunnarsson rithöfundur

Pétur Gunnarsson rithöfundur

Pétur Gunnarsson:

Erindi haldið á málþingi BÍL 24. nóvember 2018

Fyrir daga starfslauna listamanna voru við lýði hin svokölluðu listamannalaun sem pólitískt skipuð úthlutunarnefnd úthlutaði við árvissa óánægju allra. Úthlutunin lá jafnan undir ámæli um að spegla valdahlutföllin á Alþingi frekar en listrænt mat uns svo var komið að rithöfundar, sem annars voru um þær mundir klofnir í  tvær fylkingar, tóku höndum saman í baráttu fyrir tilkomu ritlaunasjóðs sem höfundar gætu sótt í til að vinna fyrirfram skilgreind verk, en faglega skipuð nefnd fjallaði síðan um umsóknirnar. Slíkur sjóður tók til starfa árið 1972 og varð tuttugu árum síðar, árið 1992, að módeli fyrir starfslaun listamanna þegar myndlistarmenn og tónskáld bættust í hópinn, ásamt listasjóði sem var ekki eyrnamerktur sérstakri listgrein. Lagt var upp með pott sem í voru 1200 mánaðarlaun sem áttu að taka mið af byrjunarlaunum menntaskólakennara. Leið svo heill áratugur án þess mánuðum væri fjölgað þrátt fyrir fjölgun þjóðarinnar og knýjandi þörf fyrir eðlilega og sjálfsagða nýliðun listamanna. Við svo búið mátti ekki standa og á aðalfundi BÍL í Borgarnesi í ársbyrjun árið 2007 var samþykkt ályktun þar sem þess var krafist að stöðnunin yrði rofin og sjóðurinn aukinn. Erindinu var fylgt eftir á samráðsfundi með menntamálaráðherra í mars það ár og þá um haustið, nánar tiltekið á 80 ára afmælisfagnaði BÍL, boðaði menntamálaráðherra í hátíðarræðu til fundar með fulltrúum listamanna um fjölgun og fyrirkomulag starfslauna. Fundurinn átti að fara fram þá um haustið, eða þann 9. október, en af honum varð aldrei – þremur dögum áður bað forsætisráðherra Guð að blessa Ísland og fundi var frestað um óákveðinn tíma.

Stjórnin féll og ný stjórn tók við sem ákvað, þrátt fyrir ískyggilegar horfur og þungbúinn þjóðfélagshimin, að standa við gefin fyrirheit. Á fundi nýs menntamálaráðherra með fulltrúum BÍL þann 7.janúar 2009  – sem stóð í heilar sjö klukkustundir – var nýtt fyrirkomulag starfslauna kynnt og samþykkt, sjóðum fjölgað úr þremur í sex og mánuðum fjölgað um 400 sem síðan skiptust á milli listgreina eftir samningaviðræður hlutaðeigenda sem gengu ekki þrautalaust fyrir sig.

Og enn eru liðin tíu ár, BÍL er orðið nírætt, og hlýtur að vera mál til komið að knýja á um nýja fjölgun. Til að réttlæta hana ætti ekki að þurfa önnur rök en fjölgun þjóðarinnar og listamanna í hlutfalli við hana. En til viðbótar koma breytingar sem orðið hafa og eru stöðugt að verða á landslagi listanna og aðstöðu listamanna. Þar er  gerólíku saman að jafna nú eða fyrir aldarfjórðungi þegar lögin um starfslaun voru fyrst sett. Til dæmis að taka hafa heilu meginlöndin á borð við hljómplötur og diska svo að segja gufað upp, upplög bóka hafa minnkað um helming og menn sækja í auknum mæli á netið efni sem áður var höfundarvarið. En á sama tíma hefur þörfin fyrir hugverk aldrei verið brýnni og þáttur hins opinbera hlýtur þar af leiðandi að vaxa að sama skapi.

Góðir félagar, stofnun BÍL fór ekki hátt á sínum tíma, þótt leitað sé með logandi ljósi í blöðum frá því fyrir níutíu árum sér þess hvergi stað að samtök okkar hafi verið stofnuð, sennilega ekki þótt fréttnæmt. Og stjórnmálamenn hafa löngum verið uppteknari af BÍLL, þ.e. bandalagi látinna listamanna, bæði hafa meðlimirnir þá sannað sig og eru mun léttari á fóðrum en þeir sem enn draga andann. Engu að síður er það svo að þegar við horfum aftur um níutíu ár eru það einmitt listamennirnir sem stóðu að stofnun BÍL sem standa á sviðinu, ég nefni af handahófi: rithöfundana Gunnar Gunnarsson, Halldór Laxness, Kristínu Sigfúsdóttur, Þórberg Þórðarson og Davíð Stefánsson, myndlistarmennina Kjarval, Guðmund frá Miðdal, Kristínu Jónsdóttur, Ásgrím Jónsson, Júlíönu Sveinsdóttur, Einar Jónsson, Jón Stefánson, Gunnlaugana Blöndal og Scheving, tónskáldin Jón Leifs og Pál Ísólfsson …

Íslenska fullveldið var þá tíu ára og frumherjarnir voru þess fullvissir að án blómlegrar menningar væri það orðin tóm. Hugmyndasmiðurinn og arkitektinn að stofnun BÍL, Jón Leifs tónskáld, líkti því við landvarnir og sagði að ef stjórnvöld veittu þó ekki væri nema broti af því sem aðrar þjóðir kostuðu til landvarna væri björninn unninn. Og einn úr þeirra hópi, Halldór Laxness, komst svo að orði:

„… Gildi þjóðar fer eftir menníngu hennar. Þjóð sem ekki þykist hafa efni á því að eiga menníngu á eingan tilverurrétt. Ef vér íslendíngar þykjumst ekki hafa efni á því að eiga menn sem setja fram merkilegar hugsanir á merkilegan hátt, þá eigum vér að fara burt úr þessu landi og það strax á morgun. Vér eigum að fara til Mexíkó eða eitthvað þángað.

Ef vér viljum ekki nota aðstöðu vora hér til þess að skapa menníngu, þá er ekki til neins fyrir okkur að vera hér, því að vér höfum hér einga köllun nema menníngarlega. Það er miklu betra að lifa einsog skepnur í Mexíkó heldur en hér, ef vér höfum ekki annað á stefnuskránni en lifa einsog skepnur.“ [1]

Þetta var fyrir níutíu árum þegar íslenskt samfélag var sannarlega fátækt og smátt, í dag er það eitt það ríkasta í víðri veröld og hefur úr auðlindum að spila á borð við sjávarfang, vatn, orku og ferðamannastraum.

Að endingu þetta: heimurinn horfist nú í augu við takmörk sín, öll ytri umsvif eiga fyrir höndum að skreppa saman, sá lífs- og neyslumáti sem enn viðgengst á eftir að þykja fáránlegur, glæpsamlegur jafnvel. Að sama skapi mun hið innra vaxa, innlöndin, sköpunin, upplifunin, tjáningin – vistsporið á eftir að grynnka, listsporið að dýpka.

[1] Erindi um menningarmál sem HKL hélt í nýstofnaðri útvarpsstöð í Reykjavík 3. júlí 1926 og birtist í Alþýðublaðinu 21. ágúst 1926 og ritgerðarsafninu Af menníngarástandi 1987, bls. 110-116.


Listþing BÍL 2018

BÍL
Laugardaginn 24. nóvember mun Bandalag íslenskra listamanna standa fyrir málþingi ásamt Mennta- og menningarmálaráðuneytinu.

Við ætlum okkur á þessu listþingi að fjalla um kjör listamanna á breiðum grundvelli, starfslauna- og verkefnasjóðina, gildi þeirra og virði, áhrif sjóðanna á kjör og samningsstöðu listamanna, viðhorf til starfs listamannsins og verðmæti listarinnar, hver og hvernig er greitt fyrir það verðmæti.

Þetta eru mikilvægar spurningar og vonandi geta listamenn lagt grunninn að samtali um starfsumhverfið sitt með þessu samtali.

Þingið verður haldið í Iðnó, Vonarstræti 4 og stendur frá klukkan 10:00 til 15:00

Í lok þingsins munum við svo skála í tilefni af 90 ára afmæli Bandalags íslenskra listamanna og óska okkur til hamingju með þann áfanga.

Þingið er öllum listamönnum opið en skráning fer fram á slóðinni hér fyrir neðan.

Skrá hér


Jakobínuvaka 2018

Í tilefni af því að 100 ár eru liðin frá fæðingu Jakobínu Sigurðardóttur verður haldin Jakobínuvaka í Iðnó laugardaginn 25. ágúst 2018 kl. 15:00. Flutt verða erindi um Jakobínu, lesið upp úr verkum hennar og flutt tónlist við ljóð hennar.

Sjá einnig viðburð á Facebook.

Dagskrá

Setning: Rithöfundasamband Íslands

Erindi:

  • Ástráður Eysteinsson bókmenntafræðingur:  Þessi blessaða þjóð. Um eina smásögu og fleiri verk eftir Jakobínu Sigurðardóttur
  • Helga Kress bókmenntafræðingur: „. . . eins og hún gæti stokkið út úr orðunum“. Um uppreisn kvenna og samskipti kynjanna í bókum Jakobínu
  • Sigríður K. Þorgrímsdóttir: Heimsókn gyðjunnar. Saga skáldkonu
  • Jóna Kristjana Hólmgeirsdóttir og Karítas Hrundar Pálsdóttir: Óður til Jakobínu: Ritlistarnemar lesa upp úr eigin verkum. 

Upplestur: Guðni Kolbeinsson, Arnar Jónsson, Guðný Sigurðardóttir

Tónlist:  Ingibjörg Azima tónskáld

Söngur: Margrét Hrafnsdóttir, Gissur Páll Gissurarson

Undirleikur: Guðrún Dalía Salómonsdóttir

Vökunni stýrir Sigrún Huld Þorgrímsdóttir


ELÍSABET SEXTUG

Sunnudaginn 22. apríl verður haldið málþing í tilefni að sextugsafmæli Elísabetar Jökulsdóttur. Málþingið fer fram í Gunnarshúsi, húsi Rithöfundasambandsins, á Dyngjuvegi 8 og hefst kl. 15:00 og stendur til kl. 17:00.

DAGSKRÁ

15:00   Soffía Auður Birgisdóttir: Setning málþingsins.

15:05   Leikhópurinn Ra Ta Tam flytur atriði úr leiksýningunni Ahhh – Ástin er að halda jafnvægi. Nei fokk. Ástin er að detta, sem byggt er á textum eftir Elísabetu Jökulsdóttur.

15:15   Hólmfríður M. Bjarnardóttir: Viltu vera kærastinn minn? Um leikritið Ahhh – Ástin er að halda jafnvægi. Nei fokk. Ástin er að detta.

15:30   Ljóðalestur og kontrabassaleikur: Elísabet Jökulsdóttir og Borgar Magnason.

15:50   Kaffihlé.

16:10   Hrund Ólafsdóttir: Ekkert pláss fyrir ást. Um skáldsöguna Laufey.

16:25   Bergljót Soffía Kristjánsdóttir og Guðrún Steinþórsdóttir: „Alvörukona“ og uppreisnarseggur, verseraður í menningunni. Um Ástin er ein taugahrúga. Enginn dans við Ufsaklett.

16:40   Soffía Auður Birgisdóttir: Tilfinningar eru eldsneyti fyrir hugmyndir: Um skáldskaparheim Elísabetar Jökulsdóttur.

17:00   Þingslit.


Ritunarþing 11. apríl

Þann 11. apríl nk. standa Félag fagfólks á skólasöfnum, Háskóli Íslands, Kennarasamband Íslands, Menntamálastofnun, Rithöfundarsamband Íslands, Samtök móðurmálskennara og Sögur – Samtök um barnamenningu saman að málþingi til að vekja athygli á ritun í grunnskólum. 


Frítt verður á þingið og veitingar í boði. Allir velkomnir!

Ritunarþing


BarnabókinSíung- samtök barnabókahöfunda standa fyrir ráðstefnu um barnabókina i Ráðhúsinu kl. tvö í dag. Ráðstefnan ber yfirskriftina ,,Barnabókin er svarið.“

Neyðaráætlun fyrir íslenska tungu
Höfum eitt á hreinu, svo það sé sagt, skrifað og lesið upphátt. Íslendingum þykir heilt yfir ekkert sérlega vænt um tungumálið sitt. Þeir bera litla virðingu fyrir því, ýta því til hliðar og eðlilega er þá þetta tungumál á hröðu undanhaldi. Íslenskan er vanrækt og vannærð örtunga í útrýmingarhættu og hvergi virðist neyðaráætlun sjáanleg. Til samanburðar við risastóru nágrannalöndin má geta þess að Norðmenn skilgreina norsku sem örtungu í útrýmingarhættu og fylgja sérlegri aðgerðaráætlun til að viðhalda og bjarga norskri tungu og bókmenntum.

Gröf íslenskra fræða
Hvað veldur þessu virðingarleysi fyrir þjóðararfinum? Er þetta ekki latína norðursins sem þó er enn töluð? Kannski finnst okkur þetta tungumál skilgreina okkur sem smælki í alþjóðlega samhenginu, gera okkur pínulítil og púkaleg á torgum stórþjóða. Fyrir vikið er íslenskunni ekkert sérstaklega hampað hér í heimalandinu, nema kannski þennan dag í nóvember þegar hann Jónas fæddist. Merki vanrækslunnar eru víða og hróplegasta táknið er gröf íslenskra fræða. Pyttur sem sýnir táknrænt viðmót þjóðar til móðurmáls. Þar í forinni liggur sorglega sjálfsmyndin. Okkar Louvre og Lundúnarturn sem á að varðveita gersemarnar. Og af því að mörg okkar skilja fyrirbærin betur ef hægt er að tengja þau viðskiptahagsmunum þá liggja ónýtt tækifæri í því að sýna ekki gestum, okkur sjálfum og skólabörnum þúsund ára gamlar bækur á tungumáli sem enn er talað. En líklega er tungumálið of svipað súrefni í notkun. Það er bara þarna og við söknum þess ekki fyrr en það er horfið. Kjörnir fulltrúar og viðskiptajöfrar leggja sumir til að íslenskunni verði sleppt í stórvægilegum daglegum skýrslugerðarverksmiðjum stjórnmála- og viðskipta til að auðvelda, spara og stytta boðleiðir. Tungumál eru eins og landslag og þegar eitt hverfur myndast eyðimörk með uppfoki.

Felum tungumálið
En um leið flæða hingað ferðamenn sem aldrei fyrr. Við keppumst við að þýða allt viðmót til ferðamannsins, felum tungumálið og tökum á móti gestum á syngjandi amerísku svo heimstungan enska ber ekki einu sinni keim af íslensku. Kveðjuorðin okkar eru lítt notuð og á undraverðum tíma hefur tekist að skapa fullkomið enskt viðmót við ferðamönnum. ,,Börn eru svo tvítyngd nú til dags,“ segja þá einhverjir. En staðreyndin er sú að algengara er að börn sitji uppi með tvö hálfmál ef þau eru ekki sterk í sínu móðurmáli. ,,Svona er þetta allsstaðar,“ segja þá aðrir. En, nei, þetta er alls ekki svona allsstaðar. Yfirferð um Evrópu sýnir virðingu og væntumþykju á heimavöllum gagnvart frönsku, þýsku, flæmsku, svissnesku. Og það er ljúft að heyra tungumál á framandi stað, glíma jafnvel við það sjálfur og sjá það, heyra það og fá í fangið. Það er hluti af því að ferðast og upplifa. Tungumál er hljóðmynd hvers lands.

Barnabókin er svarið
Við eigum ekki kastala og hallir, bara þetta tungumál sem er okkar stóri þjóðararfur. Við skattpínum bókaútgáfu, getum ekki gefið út myndskreyttar barnabækur og fjársveltum öll skóla- og héraðsbókasöfn landsins í innkaupum á nýju efni fyrir börn. Ef við viljum lesa áfram á þessu tungumáli, hugsa og skilgreina okkur út frá því verðum við að grípa til aðgerða líkt og norðmenn og fleiri þjóðir hafa gert. Barnabókin er grunnliturinn í stóru myndinni. Hún er grunnurinn að læsi þeirra sem taka við kefli og halda áfram. Læsi er lykill að tungumáli og það er margsannað að því færara sem barn er á sínu móðurmáli þeim mun sterkara verður það í öðrum tungumálum. Við þurfum neyðaráætlun til bjargar íslenskri tungu og bókmenntum. Stjórnvöld bera þessa ábyrgð. Barnabókin er svarið og þeir sem stýra þjóðarheimilinu þurfa að hanna menningaráætlun fyrir tungumál og bókmenntir og fylgja henni fast og strax.

Kristín Helga Gunnarsdóttir


Alþjóðlegt þýðendaþing í Reykjavík

Á alþjóðlega þýðendaþinginu í Reykjavík koma saman og þinga 30 þýðendur frá 17 málsvæðum, jafnt reyndir þýðendur og nýir. Tungumálin sem þeir þýða á eru enska, danska, finnska, franska, galisíska, hollenska, ítalska, kínverska, norska, portúgalska, pólska, serbneska, spænska, sænska, tékkneska, ungverska og þýska. Um helmingur þátttakenda er búsettur hér á landi og helmingur kemur að utan.

Þýðendur eru öflugir sendiherrar bókmenntanna

Markmið með þýðendaþinginu er meðal annars að efla og treysta tengslin við starfandi þýðendur á erlend tungumál og sýna í verki hve mikils metin þeirra vinna er, en þýðendur bókmennta á erlend mál eru öflugir sendiherrar bókmenntanna og auka hróður þeirra um allan heim. Aðstandendur þingsins vilja jafnframt hvetja nýja og upprennandi þýðendur til dáða og auðvelda þeim að komast í snertingu við íslenskan bókaheim og menningu líðandi stundar – auk þess að hitta og vinna með reyndum þýðendum.

Vinsældir íslenskra bókmennta eru miklar og fara vaxandi víða um heim, sem marka má meðal annars á fjölgun umsókna milli ára til Miðstöðvar íslenskra bókmennta um þýðingastyrki úr íslensku á erlend mál og því verður mikilvægi góðra þýðenda enn brýnna, svo unnt verði að bregðast við eftirspurninni og kynna með því íslenska höfunda og menningu um allan heim.

Fjölbreytt dagskrá um þýðingar, tungumál og menningu

Þetta er í annað skipti sem slíkt þing er haldið hér á landi fyrir þýðendur íslenskra bókmennta á ýmis erlend mál samtímis, en fyrsta þingið var haldið árið 2009 í aðdraganda heiðursþátttöku Íslands á bókasýningunni í Frankfurt. Einnig hafa áður verið haldin norræn þýðendaþing.

Dagskrá þingsins verður þétt og fjölbreytt, í formi vinnustofa og fyrirlestra höfunda og sérfræðinga um allt mögulegt er lýtur að íslensku máli og gildi þýðinga fyrir höfunda og menningu þjóðarinnar. Jafnframt fara þýðendurnir sem taka þátt í þinginu í bókmenntagöngu, móttökur og fleira. Þingið er ekki opið almenningi.

Þingið er haldið í beinu framhaldi af Bókmenntahátíð í Reykjavík 2017 svo þátttakendur á þinginu geti nýtt tækifærið og sótt viðburði hátíðarinnar og hitt kollega í Reykjavík áður en þingstörfin hefjast.

Miðstöð íslenskra bókmennta hefur veg og vanda af undirbúningi og skipulagi þingsins. Samstarfsaðilar eru Árnastofnun, Félag íslenskra bókaútgefenda, Bandalag þýðenda og túlka, Bókmenntahátíð í Reykjavík, Rithöfundasamband Íslands, Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO og Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum. Þingið nýtur jafnframt fjárstuðnings Mennta- og menningarmálaráðuneytis, Utanríkisráðuneytis og Íslandsstofu.


Sviðslistir í brennidepli – Framtíð leikritunar á Íslandi

Umræðukvöld um framtíð leikritunar á Íslandi í Gunnarshúsi, Dyngjuvegi 8,
mánudaginn 27. mars kl. 20.15.

Frummælendur:
Hrafnhildur Hagalín listrænn ráðunautur Borgarleikhússins
Símon Birgisson handrits- og sýningadramatúrg Þjóðleikhússins
Friðrik Friðriksson leikari og framkvæmdastjóri Tjarnarbíós
Bjarni Jónsson leikskáld

Hlín Agnarsdóttir rithöfundur og leikstjóri stjórnar umræðum

Hægt er að taka leið 14 nánast upp að dyrum á Gunnarshúsi.

Slide1


Sviðslistir í brennidepli – kafað í fræðin

Málþing um sviðslistir verður haldið þriðjudaginn 14. mars kl. 20.00 í Gunnarhúsi, Dyngjuvegi 8.
Nýútkomnar eru þrjár bækur sem fjalla um íslenska leiklist frá afar ólíkum sjónarhólum. Höfundarnir þrír segja frá verkum sínum og að því loknu mun Sigríður Jónsdóttir leiklistargagnrýnandi Fréttablaðsins spyrja þá út úr og stjórna umræðum. Athugið að kvöldið er hið fyrra af tveimur en síðari hluti málþingsins fer fram 27. mars.

leiklist

 

Íslensk leiklist III en þar rekur Sveinn Einarsson leikstjóri, rithöfundur og fyrrum leikhússtjóri, íslenska leiklistarsögu áranna 1920 til 1960. Hið íslenska bókmenntafélag gefur út.

 

 

 

lóðréttLóðrétt rannsókn: Ódauðleg verk Áhugaleikhúss átvinnumanna 2005-2015 eftir Steinunni Knútsdóttur, sviðslistakonu og forseta sviðslistadeildar Listaháskóla Íslands. Í bókinni varpar Steinunn persónlegu ljósi á tíu ára sögu Áhugaleikhúss atvinnumanna og rekur tilurð leikverkanna sem saman mynda kvintólógíuna „Ódauðleg verk“. Útgefendur Listaháskóli Íslands og Háskólaútgáfan.

Bókin var tilnefnd til Viðurkenningar Hagþenkis 2016.

stef

 

Stef ástar og valds – í sviðsetningum Þórhildar Þorleifsdóttur eftir Trausta Ólafsson leiklistarfræðing. Í bókinni er fjallað um listamanninn Þórhildi Þorleifsdóttur og merkt framlag hennar til íslensks leikhúss undanfarinna áratuga. Útgefandi Háskólaútgáfan.


Lifað af listinni – málþing

Lifað af listinni

Málþingið í Iðnó kl. 13 – 16, föstudaginn 18. mars nk.
Boðið verður upp á kaffi, te og með því. Enginn aðgangseyrir.
Málþingið byggir á stuttum erindum um nokkra veigamikla þætti höfundaréttar, sem eru ofarlega á baugi um þessar mundir. Einnig verða umræður á borðum og í pallborði í lok dags.

Dagskrá:
1. Eintakagerð til einkanota – Gunnar Guðmundsson, formaður IHM og framkvæmdastjóri SFH.
2. Virði verka á vefnum – Guðrún Björk Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri STEFs
3. Samningskvaðir – frábær leið til aukins aðgengis – Helga Sigrún Harðardóttir, framkvæmdastjóri FJÖLÍS
4. Ný tilskipun Evrópusambandsins um umsýslu með höfundarétti – Vigdís Sigurðardóttir lögmaður
5. Menningararfurinn og mikilvægi fræðslu um höfundarétt – Knútur Bruun, fyrrv. stjórnarformaður MYNDSTEFs
6. Hringborðsumræður með fulltrúum þingflokkanna – sýn löggjafans á framtíð höfundaréttar.
Málþingsstjóri: Kolbrún Halldórsdóttir forseti BÍL

Gunni og Felix krydda umræðuna með innskotum um inntak höfundaréttar og það hvernig listafólki gengur að lifa af listinni. Helga Páley teiknari mun mynd-túlka (teikna) málþingið, túlka helstu lykilsetningarnar og stemninguna. Hægt verður að kynna sér afraksturinn í kaffihléi og að málþinginu loknu. Þá munu gestir taka virkan þátt í málþinginu, því að erindum loknum verða umræður á borðum

Að málþinginu standa BÍL, FJÖLÍS, STEF, MYNDSTEF og IHM