Rithöfundasamband Íslands

The Writers' Union of Iceland


Lestur hefur aukist og landsmenn lesa nú að meðaltali 2,3 bækur á mánuði

Nýlega lét Miðstöð íslenskra bókmennta, í samstarfi við RSÍ og aðra helstu aðila á bókmenntasviðinu, gera könnun á viðhorfi Íslendinga til bóklestrar og fleira. Niðurstöðurnar sýna að lestur hefur heldur aukist, sérstaklega notkun hljóðbóka. Afkastamestu lesendurnir eru konur og barnafjölskyldur. Ungt fólk les mikið á öðrum tungumálum en íslensku. Yfirgnæfandi meirihluti telur opinberan stuðning við bókmenntir mikilvægan og greinilegt er að samtal um bækur lifir góðu lífi og hefur mikil áhrif á hvað fólk les.

Niðurstöður nýrrar lestrarkönnunar sýna að konur og barnafjölskyldur lesa mest og að hljóðbókin sækir á. Unga fólkið les mikið á öðrum tungumálum en íslensku og flestir fá hugmyndir að lesefni frá vinum og ættingjum.

 • Meðalfjöldi lesinna bóka var 2,3 bækur á mánuði í samanburði við 2 bækur að meðaltali í lestrarkönnun fyrir tveimur árum.
 • Svarendur með tvö eða fleiri börn á heimili lásu fleiri bækur en þeir sem ekki eru með börn á heimilinu.
 • Þátttakendur á aldrinum 18 til 24 ára lásu færri bækur en þeir sem eldri eru.
 • Lestur hefðbundinna bóka er minni í ár en í könnuninni 2018.
 • Hlustun á hljóðbækur er meiri nú en í fyrra.
 • Aldurshópurinn 18 til 35 ára les oftar en aðrir aldurshópar á öðru tungumáli en íslensku.
 • Mikill meirihluti þjóðarinnar eða um 76% svarenda telja mikilvægt að íslenskar bókmenntir hafi aðgang að opinberum stuðningi. 
 • Yfir helmingur svarenda fær hugmyndir að lesefni frá vinum og ættingjum.

Frétt Miðstöðvar íslenskra bókmennta um könnunina má sjá hér.

Heildarniðurstöður könnunarinnar má sjá hér.


Meirihluti landsmanna les bækur og fær hugmyndir að lesefni frá vinum og ættingjum. Konur lesa meira en karlar.

Miðstöð íslenskra bókmennta lét nýlega gera könnun á viðhorfi þjóðarinnar til m.a. bóklestrar, þýðinga, bókasafna og opinbers stuðnings við bókmenntir.

Niðurstöðurnar gefa sterkar vísbendingar um að lestur sé enn stór þáttur í lífi landsmanna og að viðhorf fólks sé jákvætt í garð bókmennta, lestrar og opinbers stuðnings við bókmenntir. Athyglisvert er að svarendum á aldrinum 18-24 ára finnst mikilvægara en öðrum aldurshópum að íslenskar bókmenntir hafi aðgang að opinberum stuðningi. Karlar lesa að meðaltali 2 bækur á mánuði en konur 3,5 og þær eru hlynntari opinberum stuðningi við bókmenntir en karlar. Vinir og ættingjar hafa mest áhrif á val á lesefni en einnig vegur umfjöllun í fjölmiðlun þungt.

 

 • Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar telur yfirgnæfandi meirihluti landsmanna, eða um 79%, mikilvægt að íslenskar bókmenntir hafi aðgang að opinberum stuðningi, sem er hærra hlutfall en í sambærilegri könnun frá síðasta ári. Konur eru í meirihluta þeirra og fólk á aldrinum 18-24 ára.

Opinber-studningur

Mynd 1. Niðurstöður fyrir spurninguna Hversu mikilvægt eða lítilvægt finnst þér að íslenskar bókmenntir hafi aðgang að opinberum stuðningi?” Myndin sýnir hlutfall þeirra sem tóku afstöðu.

 • Niðurstöður sýna að 72% svarenda hafa lesið eða hlustað á bók/bækur síðastliðna 30 daga að hluta eða í heild. Um 86% þeirra hafa lesið hefðbundnar bækur á síðustu 12 mánuðum, 31% lesið rafbækur og 35% hlustað á hljóðbækur. Karlar lesa að meðaltali 2 bækur á mánuði en konur 3,5.

Mynd 2. Niðurstöður fyrir spurninguna Hversu margar bækur hefur þú lesið eða hlustað á síðastliðna 30 daga, að hluta eða í heild?” Myndin sýnir hlutfall þeirra sem tóku afstöðu.

 • Samkvæmt niðurstöðum fá um 56% svarenda hugmyndir að lesefni frá vinum og ættingjum, um 40% í umfjöllun í fjölmiðlum, 30% í umfjöllun á samfélagsmiðlum, um 26% í bókabúðum, um 25% í auglýsingum og um 20% á bókasöfnum.

Hugmyndir-ad-lesefni

Sjá ítarlegri niðurstöður um þrjár ofangreindar spurningar hér .

Þátttakendur voru spurðir eftirfarandi sjö spurninga:

 1. Hversu margar bækur hefur þú lesið eða hlustað á síðastliðna 30 daga, að hluta eða í heild?“
 2. Hversu oft eða sjaldan hefur þú lesið/hlustað á bækur með eftirfarandi hætti á síðastliðnum 12 mánuðum?“
 3. Lest þú á íslensku eða öðru tungumáli?“
 4. Hversu oft eða sjaldan hefur þú nýtt þér þjónustu bókasafna á Íslandi á síðastliðnum 12 mánuðum?“
 5.  „Hversu sammála eða ósammála ert þú eftirfarandi fullyrðingu: Það er mikilvægt að þýða nýjar erlendar bækur á íslensku.“
 6. Hvar færð þú helst hugmyndir að lesefni?“
 7. Hversu mikilvægt eða lítilvægt finnst þér að íslenskar bókmenntir hafi aðgang að opinberum stuðningi?“

Sjá heildarniðurstöður könnunarinnar hér .

Zenter rannsóknir framkvæmdi könnunina fyrir Miðstöð íslenskra bókmennta dagana 31. október til 12. nóvember sl., úrtakið var 2480 einstaklingar, 18 ára og eldri, og var svarhlutfall 53% eða 1311 manns. Tekið er tillit til kyns, aldurs og búsetu.

Auk Miðstöðvar íslenskra bókmennta lögðu eftirtaldir könnuninni lið: Borgarbókasafn, Félag bókaútgefenda, Hagþenkir, Landsbókasafn – Háskólabókasafn, Reykjavík Bókmenntaborg og Rithöfundasamband Íslands.


Kjarakönnun meðal félagsmanna

Kjarakönnun hefur verið send á alla félagsmenn RSÍ og biðjum við ykkur vinsamlegast um að svara henni ef þið hafið tök á og teljið hana eiga við ykkur. Skrifstofa RSÍ hefur nýlega komið sér upp búnaði til að framkvæma kannanir af þessu tagi og við sjáum fram á að geta safnað í sarpinn tölulegum upplýsingum og viðhorfum sem nýtast stjórn og skrifstofu í baráttu fyrir bættu starfsumhverfi félagsmanna. Könnuninni lýkur 20. mars nk.