Reykjavíkurborg auglýsir eftir óbirtu handriti að skáldverki fyrir börn eða unglinga, frumsömdu á íslensku, til að keppa um Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur. Verðlaununum verður úthlutað í annað sinn í apríl 2020.
Senda skal inn til Reykjavíkurborgar óbirt handrit að skáldverki fyrir börn eða unglinga, frumsömdu á íslensku. Handritum sem keppa til verðlaunanna þarf að skila í þríriti merktum dulnefni, en nafn og heimilisfang fylgi með í lokuðu umslagi. Handrit berist í síðasta lagi 9. janúar 2020.
Utanáskrift handrita:
Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur b.t. Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO Ráðhúsi Reykjavíkur Tjarnargötu 11 101 Reykjavík.
Útgáfuréttur verðlaunahandrits er í höndum höfundar eða þess forlags sem hann ákveður. Sé dómnefnd á einu máli um að ekkert þeirra verka sem borist hafa fullnægi þeim kröfum sem hún telur að gera verði til verðlaunaverka, má fella verðlaunaafhendingu niður það ár.
Hver eru verðlaunin?
Verðlaunahafi hlýtur verðlaunafé. Verðlaunaféð er greitt af Reykjavíkurborg og eru ein verðlaun veitt árlega að vori samhliða verðlaunaafhendingu Barnabókaverðlauna Reykjavíkurborgar. Árið 2019 var upphæð verðlaunanna 1 milljón króna.
Verið velkomin á höfundakvöld í Gunnarshúsi föstudaginn 13. desember kl. 18:00.
Þar munu sex höfundar lesa upp úr nýútkomnum bókum sínum – Bergþóra Snæbjörnsdóttir les úr skáldsögunni Svínshöfuð, Brynja Hjálmsdóttir les úr ljóðabókinni Okfruman, Gerður Kristný les upp úr ljóðabókinni Heimskaut, Hanna Óladóttir les úr ljóðabókinni Stökkbrigði, Kristín Ómarsdóttir les úr skáldsögunni Svanafólkið og Vigdís Grímsdóttir les úr bókinni Systa: bernskunnar vegna.
Við bjóðum þér til stofu til þess að tala um barna- og ungmennabækur!
Rithöfundarnir Arndís Þórarinsdóttir, Brynhildur Þórarinsdóttir, Sigrún Elíasdóttir og Ævar Þór Benediktsson blása til notalegs upplestrarkvölds í Gunnarshúsi, Dyngjuvegi 8, kl. 20:00 þann 12. desember.
Þau segja frá nýjustu bókunum sínum og lesa brot úr sögunum fyrir gesti. Dagskráin er ætluð öllum þeim sem hafa unun af því að lesa bækur um ungar söguhetjur, öllum sem þekkja unga lesendur og öllum sem finnst að barna- og ungmennabækur skipti höfuðmáli í hverju samfélagi.
Bækurnar sem lesið verður úr eru:
Þinn eigin tölvuleikur eftir Ævar Þór Benediktsson
Leitin að vorinu eftir Sigrúnu Elíasdóttur
Ungfrú fótbolti eftir Brynhildi Þórarinsdóttur
Nærbuxnanjósnararnir eftir Arndísi Þórarinsdóttur
Kaffi, piparkökur og kertaljós – og bækurnar verða til sölu og áritanir í boði.
Tilnefningar til Íslensku þýðingaverðlaunanna voru kynntar þann 7. desember sl. Þann 11. og 17. desember verða haldin þýðendakvöld í Gunnarshúsi, Dyngjuvegi 8, þar sem tilnefndir þýðendur lesa upp úr verkum sínum. Upplestrarnir hefjast kl. 20:00 báða dagana.
11. desember verður lesið úr eftirfarandi bókum:
Skáldið er eitt skrípatól. Um ævi og skáldskap Fernando Pessoa. Höfundur Guðbergur Bergsson. Þýðandi: Guðbergur Bergsson (þýðandi les). JPV gefur út.
Jónsmessunæturdraumur. Höfundur William Shakespeare. Þýðandi: Þórarinn Eldjárn (þýðandi les).Vaka-Helgafell gefur út.
Kona í hvarfpunkti. Höfundur Nawal el Saadawi. Þýðandi: Elísa Björg Þorsteinsdóttir (þýðandi les). Angústúra gefur út.
Hin ósýnilegu. Höfundur Roy Jacobsen. Þýðandi: Jón St. Kristjánsson (þýðandi les). Mál og menning gefur út.
17. desember verður lesið úr eftirfarandi bókum:
Kalli breytist í kjúkling. Höfundur Sam Copeland. Þýðandi: Guðni Kolbeinsson (þýðandi les). JPV gefur út.
Blá. Höfundur Maja Lunde. Þýðandi: Ingunn Ásdísardóttir (þýðandi les). Mál og menning gefur út.
Takið ykkur hlé frá öllu amstrinu, upplestrunum, smákökubakstrinum, gagnrýninni og háværum markaðstorgunum! Jólaboð félagsmanna verður haldið í Gunnarshúsi miðvikudaginn 18. desember frá kl. 17.00.
Guðni Kolbeinsson, Halldór Eldjárn, Guðbergur Bergsson, Elísa Björg Þorsteinsdóttir, Arthúr Björgvin Bollason, Jón St. Kristjánsson og Ásdís Ingunnardóttir
Tilnefningar til Íslensku þýðingaverðlaunanna voru kynntar í Menningarhúsinu Grófinni þann 7. desember sl. Verðlaunin eru veitt fyrir bestu þýðingu á bókmenntaverki og er tilgangur þeirra að vekja athygli á ómetanlegu framlagi þýðenda til íslenskrar menningar.
Tilnefndir þýðendur eru:
Arthúr Björgvin Bollason, fyrir þýðingu sína Tími töframanna. Höfundur Wolfram Eilenberger. Háskólaútgáfan gefur út.
Í riti sínu Tími töframanna fjallar Wolfram Eilenberger um þýska heimspeki í upphafi 20. aldar með því að lýsa lífi og verkum heimspekinganna Walters Benjamin, Ernsts Cassirer, Martins Heidegger og Ludwigs Wittgenstein. Arthúri Björgvini Bollasyni tekst að þýða þýskt fræðimál yfir á skýra og skilmerkilega íslensku vel skiljanlega fróðleiksfúsum íslenskum almenningi. Rit af þessu tagi eru ekki algeng á íslenskum bókamarkaði og því skiptir miklu að vel takist til þegar þau eru þýdd. Hefðbundið þýskt fræðimál er að mörgu leyti ólíkt íslensku en Arthúr Björgvin byggir með þýðingu sinni brú á milli þessara heima.
Elísa Björg Þorsteinsdóttir, fyrir þýðingu sína Kona í hvarfpunkti. Höfundur Nawal el Saadawi. Angústúra gefur út.
Kona í hvarfpunkti eftir Nawal el Saadawi er tímamótaverk í arabískri jafnréttisbaráttu. Höfundurinn er egypskur geðlæknir, rithöfundur og baráttukona sem hefur sætt ofsóknum og verið fangelsuð í heimalandinu fyrir skoðanir sínar og störf. Skáldsagan sem hér um ræðir kom út 1973 í Beirút, var bönnuð í heimalandinu en þýdd á fjölda tungumála og er nú komin út í þýðingu Elísu Bjargar Þorsteinsdóttur. Þýðingin nær að koma til skila fumlausri en jafnframt skelfilegri frásögn Fardaus sem situr í fangelsi og bíður dauða síns.
Guðbergur Bergsson, fyrir þýðingu sína Skáldið er eitt skrípatól. Um ævi og skáldskap Fernando Pessoa. Höfundur Guðbergur Bergsson. JPV gefur út.
Portúgalskur ljóðheimur og portúgalskar bókmenntir yfirleitt eru flestum Íslendingum lokuð bók en með riti sínu Skáldið er eitt skrípatól, um ævi og skáldskap Fernando Pessoa opnar Guðbergur Bergsson þennan heim. Hann fjallar bæði um æviferil skáldsins og samtíma hans og þýðir síðan megnið af þeim ljóðum sem Pessoa skildi eftir sig, undir eigin nafni og annarra. Nokkrar þýðingarnar hafa birst áður, en Guðbergur hefur endurskoðað þær og bætt mörgum við þannig að heildarmynd af æviverki skáldsins kemur fram. Þetta er eftirsóknarverð viðbót við menningarlega heimsmynd Íslendinga.
Guðni Kolbeinsson, fyrir þýðingu sína Kalli breytist í kjúkling. Höfundur Sam Copeland. JPV gefur út.
Kalli breytist í kjúkling eftir Sam Copeland er fyndin barnabók um alvarlegt efni. Höfundur beitir gamansemi til að lýsa kvíða Kalla vegna alvarlegra veikinda bróður hans og baráttu Kalla við hrellitröllin í skólanum. Guðni Kolbeinsson gengur til þessa alvarlega ærslaleiks búinn skopskyni sínu og þekkingu á þanþoli málsins. Útkoman er bæði börnum og fullorðnum til ánægju.
Ingunn Ásdísardóttir, fyrir þýðingu sína Blá. Höfundur Maja Lunde. Mál og menning gefur út.
Umhverfis- og loftslagsmál eru viðfangsefni skáldsögunnar Blá sem kom út árið 2017. Þar dregur norska skáldkonan Maja Lunde upp ógnvekjandi framtíðarsýn sem hún fléttar við græðgi og markaðsvæðingu náttúrunnar í samtímanum. Sagan gerist á tveimur stöðum, á tveimur tímaskeiðum: í Noregi samtímans og í Suður-Frakklandi árið 2041 þar sem íbúar flýja þurrka, elda og hungursneyð til norðurs, í leit að vatni. Verk Maju Lunde hafa verið þýdd á mörg tungumál. Þýðing Ingunnar Ásdísardóttur á skáldsögunni er í senn vönduð og blæbrigðarík.
Jón St. Kristjánsson, fyrir þýðingu sína Hin ósýnilegu. Höfundur Roy Jacobsen. Mál og menning gefur út.
Skáldsagan Hin ósýnilegu eftir norska rithöfundinn Roy Jacobsen kom út árið 2013 og er fyrsta bókin af þremur í þríleik hans um Ingrid frá Barrey og sú fyrsta sem kemur út í íslenskri þýðingu. Hér segir frá tilveru og lífsbaráttu lítillar fjölskyldu sem býr á lítilli eyju við vesturströnd Norður-Noregs á fyrri huta 20. aldar. Eyjan er einangraður heimur sem er í senn grimmur og hrífandi fagur. Ýmsir atburðir rjúfa þessa einangrun í ljóðrænni og kímniblandinni frásögn sem hefur hlotið verðskuldaða athygli. Blær skáldsögunnar kemst einkar vel til skila í fágaðri þýðingu Jóns St. Kristjánssonar.
Þórarinn Eldjárn, fyrir þýðingu sína Jónsmessunæturdraumur. Höfundur William Shakespeare. Vaka-Helgafell gefur út.
Jónsmessunæturdraumur er einn af vinsælustu gamanleikjum Williams Shakespeare. Verkið lifnar við í fjörmikilli þýðingu Þórarins Eldjárns. Með nútímalegu orðfæri kemur þýðandinn kómíkinni eftirminnilega til skila og færir leikritið um leið nær nútímalesendum. Bragleikni Þórarins nýtur sín vel og hann nýtir hana haganlega. Bundna málið styður við textann og styrkir en tekur aldrei neitt frá honum.
Íslensku þýðingaverðlaunin verða veitt í febrúar 2020. Í dómnefnd sitja Ásdís R. Magnúsdóttir, Elísabet Gunnarsdóttir og Steinþór Steingrímsson.
Að verðlaununum standa Bandalag þýðenda og túlka, Rithöfundasamband Íslands og Félag íslenskra bókaútgefenda.
Nýlega lét Miðstöð íslenskra bókmennta, í samstarfi við RSÍ og aðra helstu aðila á bókmenntasviðinu, gera könnun á viðhorfi Íslendinga til bóklestrar og fleira. Niðurstöðurnar sýna að lestur hefur heldur aukist, sérstaklega notkun hljóðbóka. Afkastamestu lesendurnir eru konur og barnafjölskyldur. Ungt fólk les mikið á öðrum tungumálum en íslensku. Yfirgnæfandi meirihluti telur opinberan stuðning við bókmenntir mikilvægan og greinilegt er að samtal um bækur lifir góðu lífi og hefur mikil áhrif á hvað fólk les.
Niðurstöður nýrrar lestrarkönnunar sýna að konur og barnafjölskyldur lesa mest og að hljóðbókin sækir á. Unga fólkið les mikið á öðrum tungumálum en íslensku og flestir fá hugmyndir að lesefni frá vinum og ættingjum.
Meðalfjöldi lesinna bóka var 2,3 bækur á mánuði í samanburði við 2 bækur að meðaltali í lestrarkönnun fyrir tveimur árum.
Svarendur með tvö eða fleiri börn á heimili lásu fleiri bækur en þeir sem ekki eru með börn á heimilinu.
Þátttakendur á aldrinum 18 til 24 ára lásu færri bækur en þeir sem eldri eru.
Lestur hefðbundinna bóka er minni í ár en í könnuninni 2018.
Hlustun á hljóðbækur er meiri nú en í fyrra.
Aldurshópurinn 18 til 35 ára les oftar en aðrir aldurshópar á öðru tungumáli en íslensku.
Mikill meirihluti þjóðarinnar eða um 76% svarenda telja mikilvægt að íslenskar bókmenntir hafi aðgang að opinberum stuðningi.
Yfir helmingur svarenda fær hugmyndir að lesefni frá vinum og ættingjum.
Saga Gunnars Gunnarssonar um eftirleitir Benedikts og fylgdarliðs hans á öræfum uppi hefur fylgt þjóðinni í 80 ár. Aðventa er bók sem kemur inn á metsölulistana ár hvert í desember og er gefin út á nýjum tungumálum enn þann dag í dag. Nú nýverið kom bókin út í Frakklandi hjá Zulma forlaginu sem gefur meðal annars út Auði Övu Ólafsdóttur, Andra Snæ Magnason og Einar Má Guðmundsson. Þessi bók Gunnars er því til í dag á um 20 tungumálum og selst enn vel en hún kom fyrst út árið 1936. Það er orðin hefð að lesa Aðventu upphátt víða um land í desember og hefur sá siður teygt sig til annarra landa. Í sendiráði Íslands í Berlín verður hún til að mynda lesin 3. desember á þýsku. En hér heima ríður Ferðafélag Akureyrar á vaðið með upplestur 1. desember. Þá munu fjórir lesarar skipta með sér lestri á sögunni að Strandgötu 23 á Akureyri og hefst lesturinn kl. 14. Gunnarsstofnun og Rithöfundasamband Íslands fylgja svo í kjölfarið viku síðar, 8. desember, með lestri í húsum skáldsins að Skriðuklaustri í Fljótsdal og Dyngjuvegi 8 í Reykjavík. Að þessu sinni mun Gunnar Björn Gunnarsson, afkomandi skáldsins, lesa á Dyngjuvegi en fyrir austan verður það Benedikt Karl Gröndal, leikari sem les. Á báðum stöðum hefst lesturinn kl. 13.30.
Hvað er betra á aðventunni en að koma og hlusta á rithöfunda lesa úr verkum sínum og gæða sér á léttum veitingum í einu fallegasta húsi landsins? Fimmtudagskvöldið 5. desember kl. 20.00 verður einmitt höfundakvöld í Gunnarshúsi, allir velkomnir, léttar veitingar í boði. Höfundarnir sem munu lesa úr verkum sínum eru Sigurlín Bjarney Gísladóttir, Ragnheiður Harpa Leifsdóttir, Eyrún Ósk Jónsdóttir, Hildur Kristín Thorstensen og Eygló Jónsdóttir.
Sigurlín Bjarney Gísladóttir hefur gefið út ljóðabækur, smásagnasafn og nóvellu og nýjasta ljóðabókin, Undrarýmið, kom út fyrr á þessu ári. Undrunin og óravíddir tilverunnar eru meginstefin í ljóðunum sem spretta hér fram og tengjast á óvæntan hátt myndum úr aldagömlum ritum um náttúrufræði og læknisfræði.
Ragnheiður Harpa Leifsdóttir er rithöfundur og sviðslistakona. Hún hefur samið og unnið að leiksýningum, gjörningum og innsetningum hérlendis og erlendis. Ritverk hennar og ljóð hennar hafa birst í ýmsum útgáfum og heyrst í útvarpi. Hún er hluti af ljóðakollektívinu Svikaskáld, en saman hafa þær gefið út þrjár ljóðabækur. Ljóðabók hennar Sítrónur og náttmyrkur er hennar fyrsta í fullri lengd og kom út 21. nóvember.
Eyrún Ósk Jónsdóttir vann bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar 2016. Auk þess að senda frá sér fjórar skáldsögur, fimm ljóðabækur og eina myndskreytta barnabók hefur Eyrún skrifað leikrit, kvikmyndahandrit, greinar og fyrirlestra, m.a um friðarmál og mannúðarheimspeki búddisma. Nýverið sendi hún frá sér ljóðabókina ,,Mamma má ég segja þér?“
Hildur Kristín er 27 ára gömul listakona. Hún kláraði leiklistabrautina við Fjölbrautarskólann í Garðabæ 2014 og fór því næst í sviðslistarnám við Länsi-Suomen opisto í Finnlandi. Hún kláraði framhaldsprófið í klassískum söng og tónlist við Söngskólann í Reykjavík árið 2017. Hún lærði leiklist við Cours florent í París og síðar í Rose Bruford í London. Hún hefur gefið út ljóðabók og barnabók. Auk þess hefur hún skrifað leikrit og starfað við þýðingar. Hún hefur einnig leikstýrt verkum fyrir listahópinn Kvist. Hildur gaf út barnabókina Töfraloftbelgurinn nú á dögunum.
Eygló Jónsdóttir er með meistaragráðu í ritlist. Hún situr í ritnefnd fyrir tímaritið Mannúð, sem fjallar um frið og mannréttindi. Hún hefur gefið út barnabókina Ljóti jólasveinninn og ljóðabókina Áttun. Hún hefur skrifað fjölda greina í blöð/tímarit og ljóð eftir hana og sögur hafa birst í safnritum. Í ár var hún fengin til þess að semja 17. júní-ljóð fjallkonunar fyrir Hafnarfjarðarbæ og þessa dagana er hún að undirbúa útgáfu á smásagnasafni sínu sem Bókabeitan mun gefa út.