Rithöfundasamband Íslands

The Writers' Union of Iceland


Jæja frá formanni

Jæja, kæru félagar.

Gunnarshús iðar af lífi. Höfundar halda hér útgáfuteiti og standa fyrir eigin uppákomum. Þannig er félagsheimilið í fullri notkun. Við höfum líka tekið upp þá nýbreytni að halda stutta og snarpa fundi í hádeginu um mál sem brenna á fólki. Við héldum tvo upplýsandi hádegisfundi um hljóðbækur á haustdögum og nýverið komum við saman í hádeginu til að ræða um taxta vegna upplestra og brýna fyrir höfundum að taka laun fyrir vinnu sína. Í kjölfarið höfum við staðið fyrir átaki þar sem við hvetjum fyrirtæki, félög og stofnanir til að greiða höfundum fyrir upplestra auk þess sem við höfum sent áminningu til grunnskóla um greiðslur til höfunda og gjaldskrá. Þá höfum við hrint af stað verkefninu Bókaveisla barnanna, en þar gefst félagsmönnum tækifæri til að skrá sig með bókartitil á lista sem sendur er á grunnskólana. Minnt er á gildi þess að fá höfunda í heimsókn og að auki vísað í gjaldskrá RSÍ. Er það von okkar að þetta geti orðið árleg sending frá RSÍ og markmiðið er að auðvelda aðgengi að höfundum og greiða leiðir bókmenntanna inn í skólana.

Framkvæmdastjórinn fór á dögunum utan til fundar við fulltrúa bókasafnssjóða höfunda um víða veröld. Þar var mál manna að staða norrænu sjóðanna væri góð miðað við önnur lönd. Víða er hart sótt að höfundaréttinum og því ljóst að aðilar samtaka um bókasafnssjóði þurfa að standa enn þéttar vörðinn og gæta að hagsmunum höfunda þegar margir seilast eftir réttindum þeirra.

Hér heima þokast samningar. Þriggja manna nefnd RSÍ hefur um langa hríð glímt við að lenda samningum við RÚV um sjónvarp, útvarp og stafræna miðlun. Þeirri vinnu miðar ágætlega undir stjórn lögmanns RSÍ, Sigríðar Rutar Júlíusdóttur. Verið er að undirbúa lokasamningalotu sem vonast er til að geti hafist innan skamms.

Verkefnið Skáld í skólum gekk vel þetta haustið. Níu höfundar fóru í 75 skólaheimsóknir á öllum grunnskólastigum með sögur og ljóð, rapp og höfundasmiðjur.

Stóra verkefnið á skrifstofunni þessa dagana eru launaútreikningar. Unnið er að kortlagningu á kjörum rithöfunda. Markmiðið með þessari vinnu er að vera tilbúin með upplýsingapakka og vel nestuð fyrir viðræður við næsta menntamálaráðherra.

Að lokum ber að geta þess að nefnd um bókmenningarstefnu mun skila af sér tillögum til menntamálaráðherra fyrir 1. desember næstkomandi. Nefndarmenn eru nokkuð sammála og einhuga um hvað gera þarf til að styðja við og styrkja tungumál, læsi og bókmenningu þjóðar. RSÍ talar fyrir hugmyndum eins og innkaupastefnu fyrir bókasöfnin að norskri fyrirmynd, stuðningi við útgáfu myndskreyttra barnabóka, og kraftmikilli innspýtingu í Bókasafnssjóð höfunda og launasjóð rithöfunda. Stoðkerfið er til staðar, en stórauka þarf fjárframlögin eftir langtíma svelti svo bókmenntirnar blómstri.

RSÍ og FÍBÚT stóðu saman að fjölmennum fundi með frambjóðendum í Safnahúsinu um aðgerðir til bjargar tungumáli og bókmenntum nú fyrir kosningar. Krafa um afnám virðisaukaskatts af bókum virðist orðin að þverpólitísku verkefni og það verður ánægjulegt að fylgjast með nýrri ríkisstjórn sem lætur það verða sitt fyrsta verk að afnema skattinn.

Að þessu sögðu er rétt að minna á jólaboðið hér í húsi. Það er nú ekki lítið mikilvægt að hafa gaman af þessu! Boðið verður haldið þann fjórtánda desember næstkomandi og  það er skyldumæting kl. 17:00.

Njótið daganna, Kristín Helga


Bóksalaverðlaunin 2016

bokabud-eymundssonBóksalar verðlauna bækur ár hvert sem starfsfólk bókaverslana á Íslandi velur sem bestu bækur ársins. Tilkynnt var um úrslitin 2016 í sjónvarpsþættinum Kiljunni á RÚV í gær, miðvikudaginn 14. desember.

Eftirtaldar bækur þykja bestar meðal bóksala í ár:

Íslensk skáldverk

1. sæti. Ör eftir Auði Övu Ólafsdóttur
2. sæti. Codex 1962 eftir Sjón
3. sæti. Drungi eftir Ragnar Ólafsson

Þýdd skáldverk

1. sæti.      Næturgalinn eftir Kristinu Hannah í þýðingu Ólafar Pétursdóttur
2.-3. sæti. Hafbókin eftir Morten Ströksnes í þýðingu Höllu Kjartansdóttur
2.-3. sæti. Það sem ég tala um þegar ég tala um hlaup eftir Haruki Murakami í þýðingu Kristjáns Hrafns Guðmundssonar

Ljóð

1. sæti.          Ljóð muna rödd eftir Sigurð Pálsson
2. sæti.         Óvissustig eftir Þórdísi Gísladóttur
3. – 4. sæti.  Núna eftir Þorstein frá Hamri
3. – 4. sæti.  Af ljóði ertu komin eftir Steinunni Sigurðardóttur

Ungmennabækur

1. sæti. Vetrarhörkur eftir Hildi Knútsdóttur
2. sæti. Skrímslið kemur eftir Patrick Ness í þýðingu Ingunnar Snædal
3. sæti. Víghólar eftir Emil Hjörvar Petersen

Ævisögur

1. sæti. Heiða eftir Steinunni Sigurðardóttur
2. sæti. Tvísaga eftir Ásdísi Höllu Bragadóttur
3. sæti. Elsku Drauma mín eftir Vigdísi Grímsdóttur

Íslenskar barnabækur

1. sæti. Flökkusaga eftir Láru Garðarsdóttur
2. sæti. Þín eigin hrollvekja eftir Ævar Þór Benediktsson
3. sæti. Doddi: bók sannleikans eftir Hildi Knútsdóttur og Þórdísi Gísladóttur

Þýddar barnabækur

1. sæti. Vonda frænkan eftir David Williams í þýðingu Guðna Kolbeinssonar
2. sæti. BFG eftir Roald Dahl í þýðingu Sólveigar Sifjar Hreiðarsdóttur
3. sæti. Bangsi litli í sumarsól eftir Benjamin Chad í þýðingu Guðrúnar Vilmundardóttur

Fræðibækur / handbækur

1. sæti. Andlit norðursins eftir Ragnar Axelsson
2. sæti. Þjóðminjar eftir Margréti Hallgrímsdóttur
3. sæti. Jón lærði eftir Viðar Hreinsson


ÁSKORUN TIL STJÓRNVALDA FRÁ RSÍ OG ÞOT VEGNA PISA

Rithöfundasamband Íslands og Bandalag þýðenda og túlka harma sorglegar niðurstöður PISA-prófanna þar sem lesskilningur hrapar enn meðal skólabarna og hratt dregur sundur milli pilta og stúlkna. Menn hafa borið fyrir sig áhrif frá ensku í gegnum tölvuleiki og annað efni ætlað börnum og unglingum sem þau hafa greiðan aðgang að. Það er þó ljóst að þessi áhrif væru sýnu minni ef mun meira væri til af þýddu og frumsömdu barnaefni fyrir alla miðla. Einnig hefur á undanförnum árum verið búið afar illa að skólabókasöfnum sem hafa víða verið í langvarandi svelti hjá fátækum sveitarfélögum. Stórauka þarf innkaup á lesefni fyrir börn og unglinga til skóla- og héraðsbókasafna.

Umfjöllun undanfarið um ástand læsis meðal skólabarna hefur varpað ljósi á það hve illa ráðamenn búa að íslenskum börnum og Menntamálastofnun er þar ekki undanskilin. Öflug útgáfa á þýddu og frumsömdu fræðslu- og kennsluefni fyrir börn og unglinga á öllum skólastigum er mikilvæg fyrir fámenna þjóð til að styrkja innlent fræðastarf og auðga íslenska tungu af hugtökum og íðorðum á öllum sviðum.

RSÍ og ÞOT skora á stjórnvöld að setja á fót margþætta neyðaráætlun foreldra, skólastofnana, félagasamtaka, fyrirtækja, menningarstofnana, sveitarfélaga og stjórnvalda með forsætisráðuneyti og forsetaembætti í fylkingarbrjósti. Í þessa neyðaráætlun þarf að leggja fjármagn sem er ekki táknrænt heldur raunverulegt og sýnilegt. Rithöfundasamband Íslands og Bandalag þýðenda og túlka telja að einungis með öflugu átaki og tafarlausum aðgerðum stjórnvalda sé hægt að sporna við þessari nöturlegu þróun og bjarga íslenskri tungu frá niðurlægingu og úreldingu sem óhjákvæmilega hlýtur að verða ef ekki er spyrnt við fótum. Við minnum á góðan árangur Norðmanna sem hafa sérstakan innkaupasjóð til að tryggja að allir íbúar hafi greiðan aðgang að nægu og fjölbreyttu nýju lesefni á bókasöfnum um allt land. Bækur þurfa ekki einasta að vera mun aðgengilegri fyrir börn og unglinga á skóla- og almenningsbókasöfnum með öflugri innkaupum, heldur þurfa þær að vera skattfrjálsar. Ný ríkisstjórn þarf að afnema virðisaukaskatt af bókum hið allra fyrsta og sýna þannig í verki að lesefni sé nauðsynjavara sem á að vera öllum aðgengileg, óháð efnahag.

Íslensk tunga á undir högg að sækja. Hér á landi er fjöldinn allur af fagfólki, þar á meðal rithöfundar, þýðendur og útgefendur, sem er reiðubúið að leggjast á árar með yfirvöldum til að bæta ástandið. Rithöfundasamband Íslands og Bandalag þýðenda og túlka lýsa sig fús til að vera væntanlegri ríkisstjórn innan handar við verkefni sem gætu skilað góðum árangri. Læsi er höfuðverkfæri mennskunnar, grunnurinn að samfélagslegum skilningi og á að vera forgangsmál hjá stjórnvöldum á öllum tímum.


Blóðdropinn 2017: tilnefningar

bloddropinn-tilnefningar-2016Á mynd: Tilnefndir höfundar og staðgenglar þeirra.
Frá vinstri: Pétur Már Ólafsson (fyrir hönd Yrsu Sigurðardóttur), Jónína Leósdóttir, Ragnar Jónasson, Úa Matthíasdóttir (fyrir hönd Arnaldar Indriðasonar) og Lilja Sigurðardóttir.

Tilnefningar til Blóðdropans, íslensku glæpasagnaverðlaunanna 2017, voru kynntar á Borgarbókasafninu í Grófinni miðvikudaginn 7. desember. Það er Hið íslenska glæpafélag sem veitir verðlaunin.

Fram til þessa hefur ekki verið tilnefnt sérstaklega til verðlaunanna, heldur hafa allar íslenskar glæpasögur komið til greina á hverju ári. Með sívaxandi útgáfu hefur þessu fyrirkomulagi nú verið breytt og fimm glæpasögur tilnefndar, en sjálfur Blóðdropinn verður afhentur í vor. Sú glæpasaga sem hlýtur verðlaunin er þar með tilnefnd til Glerlykilsins, norrænu glæpasagnaverðlaunanna.

Tilnefningar til Blóðdropans 2017 eru eftirfarandi:

Arnaldur Indriðason: Petsamo (Vaka-Helgafell)
Jónína Leósdóttir: Konan í blokkinni (JPV útgáfa)
Lilja Sigurðardóttir: Netið (JPV útgáfa)
Ragnar Jónasson: Drungi (Veröld)
Yrsa Sigurðardóttir: Aflausn (Veröld)

Í dómnefnd voru þau Kristján Jóhann Jónsson, Guðrún Ögmundsdóttir og Vera Knútsdóttir.

Pétur Már Ólafsson tók við tilnefningu fyrir hönd Yrsu Sigurðardóttur og Úa Matthíasdóttir veitti viðtöku fyrir hönd Arnaldar Indriðasonar.


Höfundakvöld – Hallveig Thorlacius

Hallveig Thorlacius les upp úr nýútkomnum bókum í Gunnarshúsi, Dyngjuvegi 8, þriðjudaginn 13. desember kl. 17.

Bækurnar MARTRÖÐ, svo AUGAÐ og nú SVARTA PADDAN eru hörkuspennandi bækur fyrir aldurshópinn 9 til 109 ára og notalegt í skammdeginu að skríða með þær undir sæng.

Bækurnar verða til sölu með áritun höfundar.

Upplestur, veitingar, samvera og rúsínan sem leynist í pylsuendanum: Sigríður Thorlacius ætlar að syngja fyrir frænku sína og gesti. Allir velkomnir.

martrod-augad-svarta-paddan


Sæmundargleði í Gunnarshúsi

allar_kapurcover3_adalst_svFöstudaginn 9. desember koma forleggjarar Sæmundar til Reykjavíkur og efna til lítillar bókamessu í Gunnarshúsi við Dyngjuveg 8. Húsið opnar klukkan 18 en áætluð samkomuslit eru um 21.

Höfundar segja frá bókum sínum í spjalli við gesti og bækur verða seldar á kjarapöllum. Þá stígur sönghópur Listaháskóla Íslands á stokk og í boði verða léttar veitingar, fastar og fljótandi.

Bókaforlagið Sæmundur á Selfossi hefur fært verulega út kvíarnar á síðustu árum og gaf út 20 titla á þessu ári en frá því félagið hóf útgáfu 2001 hafa komið út liðlega 70 titlar.

Sæmundur fagnar þessum umsvifum í húsi Gunnars Gunnarssonar skálds og býður öllum velunnurum og bókavinum að gleðjast og njóta meðan húsrúm leyfir.


Aðventa lesin í Gunnarshúsi á sunnudag

Aðventa lesin  víða um land þann 11. desember

Síðastliðin áratug hefur Gunnarsstofnun í samvinnu við aðra staðið fyrir upplestrdownloadi á Aðventu í desember, bæði hérlendis og erlendis. Aðventa verður að þessu sinni lesin á þremur stöðum sunnudaginn 11. des. Í Reykjavík les Gunnar Helgason rithöfundur söguna í Gunnarshúsi á Dyngjuvegi 8 hjá Rithöfundasambandinu. Á Akureyri les Pétur Halldórsson fyrrum útvarpsmaður í setustofu Icelandair Hótel Akureyri og á Skriðuklaustri hljómar önnur góðkunnug útvarpsrödd en þar les Gunnar Stefánsson söguna.

Upplesturinn hefst á öllum stöðunum kl. 14.


Höfundakvöld Sögufélags í Gunnarshúsi 8. desember

Fimmtudagskvöldið 8. desember kl. 20:00 stendur Sögufélag fyrir höfundakvöldi í Gunnarshúsi, Dyngjuvegi 8. Þar munu höfundar og ritstjórar bókanna sem félagið gefur út í haust kynna verk sín og spjalla um þau við fjóra sagnfræðinga, þau Erlu Huldu Halldórsdóttur, Ragnhildi Hólmgeirsdóttur, Guðmund Jónsson og Ragnheiði Kristjánsdóttur.

Dagskráin verður sem hér segir:

Már Jónsson ræðir bókina Bréf Jóns Thoroddsens, sem hann ritstýrði

Sverrir Jakobsson ræðir bók sína Auðnaróðal. Baráttan um Ísland 1096-1281

Hlé

Hrefna Róbertsdóttir og Jóhanna Þ. Guðmundsdóttir ræða útgáfu skjala Landsnefndarinnar fyrri 1770-1771, sem þær ritstýra, en fyrstu tvö bindin af sex komu út í ár

Guðni Th. Jóhannesson ræðir bók sína Fyrstu forsetarnir. Embætti þjóðhöfðingja Íslands á 20. öld

Bækurnar verða til sölu á staðnum og boðið verður upp á kaffi og te, mandarínur og piparkökur. Húsið opnar kl. 19:30, aðgangur er ókeypis og allir velkomnir.