Rithöfundasamband Íslands

The Writers' Union of Iceland


Tilnefningar til Fjöruverðlaunanna

fjoruverdlaunÍ dag, miðvikudaginn 2. desember 2015, var tilkynnt við hátíðlega athöfn í Borgarbókasafni Reykjavíkur í Grófarhúsi hvaða bækur eru tilnefndar til Fjöruverðlaunanna, bókmenntaverðlauna kvenna. Tilnefnt er í þremur flokkum, flokki barna- og unglingabókmennta, fræðibóka og rita almenns eðlis og loks flokki fagurbókmennta. Þrjár bækur eru tilnefndar í hverjum flokki. Borgarstjóri mun síðan veita verðlaunin í Höfða í lok janúar á nýju ári.

Eftirtaldar bækur eru tilnefndar:

Barna – og unglingabókmenntir

Vetrarfrí eftir Hildi Knútsdóttur
Útgefandi: Forlagið

Koparborgin eftir Ragnhildi Hólmgeirsdóttur
Útgefandi: Bókabeitan

Randalín, Mundi og afturgöngurnar eftir Þórdísi Gísladóttur og Þórarin M. Baldursson
Útgefandi: Bjartur

Dómnefnd skipuðu Þórey Mjallhvít H. Ómarsdóttir teiknari og hreyfimyndagerðarmaður (formaður), Júlía Margrét Axelsdóttir blaðamaður og Þorbjörg Karlsdóttir bókasafnsfræðingur.

Fræðibækur og rit almenns eðlis

Heiður og huggun – Erfiljóð, harmljóð og huggunarkvæði á 17. öld eftir Þórunni Sigurðardóttur
Útgefandi: Stofnun Árna Magnússonar

Ástin, drekinn og dauðinn eftir Vilborgu Davíðsdóttur
Útgefandi: Forlagið

Rof – Frásagnir kvenna af fóstureyðingum eftir Silju Báru Ómarsdóttur og Steinunni Rögnvaldsdóttur
Útgefandi: Háskólaútgáfan

Dómnefnd skipuðu Erna Magnúsdóttir líffræðingur (formaður), Erla Elíasdóttir Völudóttir þýðandi og Sigurrós Erlingsdóttir íslenskukennari.

Fagurbókmenntir

Humátt eftir Guðrúnu Hannesdóttur
Útgefandi: Textasmiðjan

Mörk eftir Þóru Karítas Árnadóttur
Útgefandi: Forlagið

Tvöfalt gler eftir Halldóru K. Thoroddsen
Útgefandi: HKT/1005 Tímaritaröð

Dómnefnd skipuðu Þórunn Hrefna Sigurjónsdóttir bókmenntafræðingur og rithöfundur (formaður), Ragnheiður Margrét Guðmundsdóttir íslenskukennari og málfarsráðgjafi og Salka Guðmundsdóttir leikskáld og þýðandi.

Rökstuðningur dómnefnda

Vetrarfrí
Vetrarfrí er lipurlega skrifuð og ákaflega spennandi unglingabók með mikilvægan boðskap og sterka ádeilu. Sagan hefur sterka samsvörun til nútímans og heimsmálanna og færir þær hörmungar sem fylgja lífi flóttamannsins nær unglingum og lesendum.

Textinn rennur vel og er áreynslulaus og persónusköpun er einkar skýr, sérstaklega á aðalsöguhetjum. Í sögunni er flottur og áhrifamikill stígandi þar sem tilveran tekur miklum stakkaskiptum; frá því að vera eðlileg tilvera unglinga og barna með þeim hversdagslegu vandamálum sem þar fylgja yfir í ofsafengin átök. Þrátt fyrir umbyltingu á tilverunni heldur lífið þó áfram og sama hvar fólk er statt og líka í stríði; heldur manneskjan áfram að vera manneskja með sínar smærri og stærri þrár, drauma og væntingar. Og í stríði halda unglingar líka áfram að vera ástfangnir.

Þrátt fyrir að sagan lýsi óhugnaði og blóðugu ofbeldi er mikill húmor í henni sem gerir það að verkum að það fjarstæðukennda verður öllu bærilegra aflestrar og er því þessi hörmungasaga því um leið líka stórskemmtileg.

Koparborgin
Í Koparborginni birtist einstakur söguheimur, margslunginn og vel hugsaður í framandi og leyndardómsfullri fantasíu. Sagan er spennandi frá fyrstu blaðsíðu, falleg og hrikaleg í senn, og heldur bæði þaulvönum fantasíuaðdáendum sem og þeim sem eru nýgræðingar á þeim lestri og er það kostur hve aðgengileg hún er þrátt fyrir að bregða upp tilveru sem er víðsfjarri lesandanum.

Viðfangsefni Koparborgarinnar eru erfiðleikar sem börn þurfa að glíma við í heimi þar sem plága hefur geisað og snýst tilveran um að þrauka dag frá degi og er tilvera barnanna grimm, ekki síður en í heimi fullorðinna þar sem þau þurfa að gera allt til að halda lífi, jafnvel þótt það kosti líf annarra og vekur sagan upp ýmsar siðferðilegar spurningar og þá kemur hún inn á vináttu, að treysta á sjálfan sig og að tilveran er ekki alltaf öll sem hún sýnist.

Aðalsöguhetjan er sérlega vel skrifuð persóna, torræð og breysk og í heild er verkið fagurlega skapað þar sem galdrar, framandleiki og dulúð gefa sögunni heillandi blæ.

Randalín, Mundi og afturgöngurnar
Randalín, Mundi og afturgöngurnar segir skemmtilega sögu sem börn tengja við og skilja þar sem sagan hefur raunverulega tengingu við líf þeirra og þeirra dagsdaglegu vandamál og verkefni.

Sögusviðið er fullkomlega barnanna og þótt fullorðnir séu síður en svo víðsfjarri í sögunni eru þeir í algjöru aukahlutverki og sá fullorðinsheimur er fullkomlega séð út frá augum barnanna og þeirra málstað; oft á skondinn hátt þar sem til dæmis flökkusögur um kattakjöt á pítsum eru settar í nýtt og skemmtilegt samhengi.

Teikningarnar eru frábærar, setja léttan blæ á söguna og auka á gæði hennar. Uppsetning og letur framkallar eilítið gamaldags stemmingu og kaflafyrirsagnirnar eru afar góð viðbót og vekja eftirvæntingu.
Yfir sögunni er skondinn og léttur tónn og höfundur hefur næmt auga fyrir því eilítið skrýtna og skemmtilega í dagsdaglegu lífi og dregur fram stemningu þar sem lesendur skynja borgarumhverfið með öllum sínum krókum, kimum, ilmi og braki í jólasnjó.

Heiður og huggun – Erfiljóð, harmljóð og huggunarkvæði á 17. öld
Bókin hefur að geyma frumrannsókn Þórunnar Sigurðardóttur á lítt rannsökuðu efni, en í henni rýnir höfundur í íslensk tækifæriskvæði frá árnýöld, sem ort voru í minningu látinna, og sýnir fram á að þau heyri undir mismunandi kvæðagreinar.

Auk fræðilegrar dýptar hefur bókin mikla breidd í efnistökum. Þórunn skoðar félagslegt og sálrænt hlutverk kvæðanna út frá samfélagsviðmiðum við ritunartíma og ber saman við hugmyndir nútímans. Jafnframt skoðar hún tengsl kvæðanna við heiður hins látna og einnig hvernig skáld gátu nýtt sér ritun erfiljóða til að auka eigin metorð.

Þau 17 kvæði sem birt eru í bókinni hafa hingað til verið varðveitt í handritum og sjást nú í fyrsta sinn á prenti, en þar á meðal eru tvö kvæði eftir íslenskar konur. Upprunalegur ritháttur textans er birtur samhliða nútímarithætti, sem gerir hann aðgengilegri fyrir lesendur.

Ástin, drekinn og dauðinn
Vilborg Davíðsdóttir fjallar hér á hispurslausan hátt um þá tilveru sem blasti við henni og eiginmanni hennar eftir að hann greindist með krabbamein.

Höfundur tekst á við áleitnar spurningar um lífið og dauðann og horfist í augu við hvort tveggja af hugrekki og æðruleysi. Bókin er skrifuð af mýkt og einlægni, Vilborg nálgast dauðann sem hluta af lífinu og vekur máls á kimum mannlífsins sem fólk veigrar sér við að ræða.

Um leið og dauðinn er til umræðu er lífinu tekið opnum örmum. Þegar meinið greindist höfðu hjónin þegar tileinkað sér lífsstíl þar sem árvekni var í fyrirrúmi, og einkenna slíkar hugleiðingar bókina.

Vilborg notar myndmál ævintýranna um baráttu sína og síns heittelskaða við krabbameinið. Meinið er kallað „drekinn“, baráttu prinsins við það lýkur á ári drekans samkvæmt kínversku tímatali og við tekur ár snáksins, eða ár endurnýjunar. Þannig fær lesandinn einnig að fylgjast með Vilborgu fóta sig þegar allt er yfirstaðið og takast á við sorgina.

Rof – Frásagnir kvenna af fóstureyðingum
Rof er tímabær bók um þýðingarmikinn hluta af reynsluheimi kvenna sem legið hefur að mestu í þagnargildi til þessa.

Í bókinni eru frásagnir 76 kvenna af fóstureyðingum sem höfundar hafa greint af kostgæfni og skipt í flokka. Greining höfunda setur frásagnirnar í samfélagslegt og fræðilegt samhengi og dýpkar þannig upplifun lesandans.

Lesandinn kemst ekki hjá því að horfast í augu við að á Íslandi er ákvörðun um fóstureyðingu ekki að fullu í höndum kvenna, heldur eru þær framkvæmdar í krafti kerfis sem vill svo til að er hliðhollt konum og þeirra ákvörðunarrétti. Þannig gæti kerfið á sama hátt dregið til baka þessi réttindi, sem konum eru í raun ekki tryggð með núgildandi lögum.

Útgangspunktur bókarinnar er að konur eigi rétt á að taka ákvörðun um fóstureyðingu á eigin forsendum og er því mikilvægt framlag til áframhaldandi réttindabaráttu kvenna og til þess að afnema þá bannhelgi sem legið hefur á umræðu um fóstureyðingar.

Humátt
Humátt er eftirminnileg, innihaldsrík og vönduð ljóðabók sem einkennist af skörpu innsæi, aðdáunarverðum stílbrögðum og óbilandi tilfinningu fyrir möguleikum ljóðsins. Bókin er uppfull af þeim nákvæmu en jafnframt kraftmiklu, óvæntu myndum sem eru eitt höfundareinkenna Guðrúnar Hannesdóttur.

Í þeim 42 ljóðum sem er að finna í fimmtu ljóðabók Guðrúnar mætir lesandanum firnasterkt myndmál og óumdeilanleg hugmyndaauðgi. Skáldið beitir ísmeygilegum húmor og meitluðu tungumáli til að draga upp myndir sem stundum vara aðeins augnablik en teygja sig þó til allra átta í tíma og rúmi. Tilfinningin fyrir fortíðinni, íslenskum alþýðuvísindum, náttúru og þjóðlegum stefjum blandast samtíma okkar í tímalausri rödd ljóðmælandans. Náttúran er síkvik og nálæg en klisjur eru víðsfjarri; Guðrún teymir lesandann stöðugt eftir óvæntum stígum.

Á stundum er rödd ljóðmælandans jafnvel óvægin, tungumálinu beitt á nístandi hátt, en undirtónninn er ávallt sannur og heill. Örugg tökin á ljóðforminu verða til þess að djúpum tilfinningum og brýnum spurningum er miðlað á hátt sem hreyfir við lesandanum og birtir honum áður óþekkta sýn. Úr listlegu samspili viðfangsefna og forms verður afar sterkt verk.

Mörk
Í Mörk skrifar Þóra Karítas Árnadóttir sögu móður sinnar, Guðbjargar Þórisdóttur. Sagan er skráð í fyrstu persónu Guðbjargar sem ólst upp í stórri og ástríkri fjölskyldu í húsinu Mörk í Reykjavík. En yfir hlýjunni og ástúðinni hvílir skuggi afans sem beitir Guðbjörgu kynferðislegu ofbeldi frá unga aldri.

Mörk er skrifuð af mikilli hlýju og einlægni. Hún er látlaus og dvelur ekki við ofbeldislýsingar, án þess að vera með tepruskap. Bókin nær að vera klisjulaus og þetta er nýr vinkill á sögu þolanda. Þetta er ekki saga um ónýtt líf heldur um manneskju sem nær að vinna úr hryllingnum og stendur uppi sem sigurvegari, þótt ekkert sé dregið úr alvarleikanum.

Til marks um úrvinnslu tilfinninga og þroska, sem Guðbjörg hefur náð, er klausa á blaðsíðu 112. Hún kallast á við nafnið á húsinu Mörk, sem var í senn heimili hennar og vettvangur ofbeldisins, og gefur titli bókarinnar þar með tvöfalda merkingu: „Nú veit ég hversu heimskulegt það var af sjálfri mér að ætlast til að ég sem barn gæti varið sjálfa mig og sett fullorðnum manni mörk.“

Tvöfalt gler
Tvöfalt gler er stutt skáldsaga, svokölluð nóvella, og í henni er skrifað um manneskju sem ekki oft fær rödd í íslenskum skáldskap; konu á áttræðisaldri sem hefur nýlega misst eiginmann sinn. Konu sem að einhverju leyti er „úr leik“ og „tíminn hefur nagað“ eins og segir í sögunni. Þegar hún lendir í ástarsambandi stendur hún frammi fyrir spurningum um réttmæti þess að verða ástfangin á efri árum, auk þess sem hún tekst á við álit fólksins í kringum sig. „Ástir gamalmenna eru ekki heilbrigðar hjónabandsástir sem miða að uppfyllingu jarðarinnar“ segir í Tvöföldu gleri, sem jafnframt sýnir fram á kosti slíkra ásta á einstakan máta.

Sagan lætur lítið yfir sér, eins og sagt er, en er þétt, fallega skrifuð og „stór“ þótt hún sé stutt. Lesendur verða nokkurs vísari um líf þeirra sem með skrauthvörfum eru kallaðir eldri borgarar en hétu hér áður fyrr gamalt fólk. Halldóra skrifar um hversdagslegar athafnir konunnar, hugsanir hennar um fortíð og framtíð og dregur upp eftirminnilega mynd af lífsþorsta og ástarþrá manneskju sem dafnar og vex þegar dauðinn er allt í kringum hana.
Halldóru Thoroddsen tekst sérlega vel að lýsa miklum tilfinningum í fáum en dýrmætum orðum. Sagan Tvöfalt gler er lágstemmd og fögur og stíllinn tær, ljóðrænn og sindrandi.

 


Tilnefningar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna

Í gær var tilkynnt við hátíðlega athöfn á Kjarvalsstöðum um tilnefningar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna 2015. Jafnframt voru kynntar þær 5 þýðingar sem tilnefndar eru til Íslensku þýðingaverðlaunanna.

Formenn dómneftilnefningndanna þriggja munu velja einn verðlaunahafa úr hverjum flokki ásamt forsetaskipuðum formanni lokadómnefndar. Íslensku bókmenntaverðlaunin 2015 verða afhent um mánaðarmótin janúar-febrúar á komandi ári af forseta Íslands, Ólafi Ragnari Grímssyni á Bessastöðum. Verðlaunaupphæðin er ein milljón króna fyrir hvern verðlaunahafa.

Eftirfarandi bækur eru tilnefndar í flokki barna- og ungmennabóka:

Arnar Már Arngrímsson – Sölvasaga unglings – Útgefandi: Sögur útgáfa

Gunnar Theodór Eggertsson – Drauga-Dísa – Útgefandi: Vaka Helgafell

Gunnar Helgason – Mamma klikk! – Útgefandi: Mál og menning

Hildur Knútsdóttir – Vetrarfrí – Útgefandi: JPV útgáfa

Þórdís Gísladóttir – Randalín, Mundi og afturgöngurnar – Útgefandi: Bjartur

Dómnefnd skipuðu: Hildigunnur Sverrisdóttir formaður nefndar, Árni Árnason og Sigurjón Kjartansson.

 Eftirfarandi bækur eru tilnefndar í flokki fagurbókmennta:

Auður Jónsdóttir – Stóri skjálfti – Útgefandi: Mál og menning

Einar Már Guðmundsson – Hundadagar – Útgefandi: Mál og menning

Hallgrímur Helgason – Sjóveikur í München – Útgefandi: JPV útgáfa

Hermann Stefánsson – Leiðin út í heim – Útgefandi: Bókaútgáfan Sæmundur

Jón Kalman Stefánsson – Eitthvað á stærð við alheiminn – Útgefandi: Bjartur

Dómnefnd skipuðu: Erna Guðrún Árnadóttir formaður nefndar, Helga Ferdinandsdóttir og Knútur Hafsteinsson

 Eftirfarandi bækur eru tilnefndar í flokki fræðibóka og rita almenns efnis:

Dagný Kristjánsdóttir – Bókabörn – Útgefandi: Háskólaútgáfan

Gunnar Þór Bjarnason – Þegar siðmenningin fór fjandans til – Íslendingar og stríðið mikla 1914 – 1918 – Útgefandi: Mál og menning

Héðinn Unnsteinsson – Vertu úlfur – wargus esto – Útgefandi: JPV útgáfa

Páll Baldvin Baldvinsson – Stríðsárin 1938 – 1945 – Útgefandi: JPV útgáfa

Smári Geirsson – Stórhvalaveiðar við Ísland til 1915 – Útgefandi: Sögufélag

Dómnefnd skipuðu: Pétur Þorsteinn Óskarsson formaður nefndar, Aðalsteinn Ingólfsson og Hulda Proppé

Íslensku þýðingaverðlaunin

Bandalag þýðenda og túlka hefur frá árinu 2005 veitt verðlaun á alþjóðlegum degi bókarinnar, 23. apríl, fyrir íslenska þýðingu á erlendu skáldverki. Forseti Íslands afhendir verðlaunin á Gljúfrasteini, en svo vill til að dagur bókarinnar er einnig fæðingardagur Halldórs Laxness.
thydenda

Íslensku þýðingaverðlaunin voru sett á fót til að vekja athygli á mikilvægi þýðinga fyrir íslenska menningu og þeim afbragðsverkum sem auðga íslenskar fagurbókmenntir á ári hverju fyrir tilstilli þýðenda. Upphaflega kusu félagsmenn Bandalags þýðenda og túlka um tilnefnd verk, en fljótlega var ákveðið að fela óháðri þriggja manna dómnefnd að tilnefna fimm verk og velja verðlaunahafann. Tilnefningar eru kynntar samhliða tilnefningum til Íslensku bókmenntaverðlaunanna.

Eftirfarandi þýðingar eru tilnefndar til Íslensku þýðingaverðlaunanna

Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson – Nýsnævi – safn ljóðaþýðinga eftir 15 höfunda – Útgefandi: Dimma

Ásdís R. Magnúsdóttir – Rangan og réttan – þrjú ritgerðarsöfn eftir Albert Camus – Útgefandi: Háskólaútgáfan

Brynja Cortes Andrésdóttir – Ef að nóttu ferðalangur eftir Italo Calvino – Útgefandi: Ugla

Jón Hallur Stefánsson – Spámennirnir í Botnleysufirði eftir Kim Leine – Útgefandi: Bókaútgáfan Sæmundur

Silja Aðalsteinsdóttir – Grimmsævintýri, Philip Pullman tók saman og endursagði – Útgefandi: Mál og menning

Dómnefnd skipuðu: Árni Matthíasson formaður nefndar, María Rán Guðjónsdóttir og Tinna Ásgeirsdóttir

 


Höfundakvöld í Gunnarshúsi – nr. 7

höfundakvöld 7

 

Næstkomandi fimmtudagskvöld, 26. nóvember, kl. 20.00, fer sjöunda höfundakvöld haustsins fram í Gunnarshúsi, húsi Rithöfundasambandsins við Dyngjuveg 8. Þá mun Kristján Guðjónsson spjalla við þau Mikael Torfason og Auði Jónsdóttur, auk þess sem höfundarnir lesa úr nýjum bókum sínum: Týnd í Paradís og Stóra skjálfta. Allir eru velkomnir meðan stólar leyfa, aðgangseyrir er 1000 krónur og veitingar innifaldar.

Týnd í Paradís er sjötta skáldsaga Mikaels Torfasonar, en í henni segir hann sögu sína, foreldra sinna og forfeðra. Við sögu koma guð, djöfullinn og Vottar Jehóva. Ennfremur hippar, læknar, sjómenn, bændur, húsmæður, drykkjumenn, reykingafólk og börn. Mikael hefur þá einnig unnið sem blaðamaður og skrifað leikrit og handrit að kvikmyndum.

Auður Jónsdóttir sendir nú frá sér sína sjöunda skáldsögu, Stóra skjálfta. Hún hefur fengið fjölmargar viðurkenningar fyrir ritstörf sín og þá einnig starfað sem sjálfstætt starfandi blaðamaður. Sagan Stóri skjálfti rekur sögu Sögu sem rankar við sér eftir flogakast á gangstétt við Miklubrautina og þriggja ára sonur hennar er á bak og burt. Upp vakna ýmsar spurningar varðandi traust, samskipti og sjálfsþekkingu. Skáldsögur Auðar Jónsdóttur hafa vakið athygli hér heima og erlendis fyrir fágæta blöndu af nístandi einlægni og húmor.

Spyrill kvöldsins er Kristján Guðjónsson, en hann hefur starfað sem blaðamaður á síðustu árum, nú síðast sem menningarritstjóri DV.


Verðlaun Jónasar Hallgrímsonar

GF

Guðjón Friðriksson hlaut í gær verðlaun Jónasar Hallgrímsonar á Degi íslenskrar tungu. Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra veitti verðlaunin í Bókasafni Mosfelssbæjar síðdegis. Bubbi Morthens fékk sérstaka viðurkenningu.

Guðjón Friðriksson hefur hin síðari ár skrifað viðamiklar ævisögur manna eins og Einars Benediktssonar, Hannesar Hafstein, Jóns Sigurðssonar forseta og Jónasar frá Hriflu. Þá hefur hann ritað sögu Faxaflóahafna, sögu Reykjavíkur og sögu  Kaupmannahafnar sem höfuðborgar Íslands. Í umsögn dómnefndar segir m.a. að hann hafi með verkum sínum markað eftirminnileg spor í íslenska bókmenntasögu og breytt viðmiðum okkar í ritun sagnfræði og ævisagna. Stíll Guðjóns sé þróttmikill og fágaður í senn, ljóðrænn og skáldlegur, en umfram allt einstaklega læsilegur og heillandi. Það megi telja víst að Jónas Hallgrímsson hefði kunnað að meta þannig stílbrögð.

Bubbi fékk sérstaka viðurkenningu

Þá fékk Bubbi Morthens  sérstaka viðurkenningu fyrir stuðning við íslenska tungu. Bubbi hafi alla tíð lagt áherslu á vandaða textasmíð á kraftmikilli íslensku, hvort heldur sem hann hafi sungið um verbúðarlífið, ástina eða brýn samfélagsmál.


Höfundakvöld í Gunnarshúsi nr. 6

6-höfundakvöld

Næstkomandi fimmtudagskvöld, 19. nóvember kl. 20.00, fer sjötta höfundakvöld haustsins fram í Gunnarshúsi, húsi Rithöfundasambandsins við Dyngjuveg 8. Þá mun Ármann Jakobsson spjalla við skáldin Bergsvein Birgisson, Sjón og Kára Tulinius, auk þess sem höfundarnir lesa úr nýjum bókum sínum. Allir eru velkomnir meðan stólar leyfa, aðgangseyrir er 1000 krónur og veitingar innifaldar.

Bergsveinn Birgisson vakti athygli í Noregi árið 2013 fyrir fræðirit sitt um Geirmund heljarskinn sem hann ritaði á norsku og nefndi Svarta víkinginn. Í skáldsögunni sem Bergsveinn sendir nú frá sér hjá Bjarti er hins vegar loks hægt að lesa stórbrotna sögu Geirmundar sjálfs. Sjón hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin 2013 fyrir síðustu skáldsögu sína, Mánastein, en hann er ekki síður afkastamikið ljóðskáld og gefur í haust út hjá JPV ljóðabókina Gráspörvar og ígulker. Kári Tulinius hefur fengist lengi við ljóðagerð, sem og önnur skrif, en sendir nú frá sér sína fyrstu sjálfstæðu ljóðabók. Hún kallast Brot hætt frum eind og kemur út hjá Meðgönguljóðum.


Ályktun frá stjórn RSÍ!

Stjórn Rithöfundasambandsins ályktar:
Rithöfundasamband Íslands harmar að eina ferðina enn skuli veist að einni mikilvægustu menningarstofnun þjóðarinnar í tilefni af nýútkominni og umdeildri skýrslu um fjárhag hennar. Ár eftir ár höfum við nú fylgst með skipulegu niðurbroti á stofnun sem heldur utan um eitt af fjöreggjum þjóðarinnar í sögulegu og menningarlegu tilliti. Hvar væri íslensk ritlist, tónlist, myndlist, kvikmyndalist, leikilist í fjölmiðlum ef ekki væri fyrir RÚV? Ríkisútvarpið sinnir öllum þessum listgreinum, auk fjölmargra annarra samfélagslegra þátta sem enginn önnur stöð kemur nálægt. Það er því fyllsta ástæða, einmitt núna, þegar þrýstingurinn á íslenskar listir og tungu hefur aldrei verið meiri, að efla og styrkja Ríkisútvarpið. Það er menningarlegt torg allrar þjóðarinnar og það eina sem við eigum.


Höfundakvöld í Gunnarshúsi

3höfundakvöld

Næstkomandi fimmtudagskvöld, 29. október kl. 20.00, fer þriðja höfundakvöld haustsins fram í Gunnarshúsi, húsi Rithöfundasambandsins við Dyngjuveg 8. Þá mun Jón Yngvi Jóhannsson spjalla við rithöfundana Einar Má Guðmundsson og Ólaf Gunnarsson, auk þess sem höfundarnir lesa úr nýjum bókum sínum. Allir eru velkomnir meðan stólar leyfa, aðgangseyrir er 1000 krónur og veitingar innifaldar.

Ný skáldsaga Einars Más Guðmundssonar, Hundadagar, er komin út hjá Mál og menningu og hefur þegar fengið feikigóða dóma. Þetta er ævintýraleg saga þar sem koma fyrir Jörundur hundadagakonungur, Jón Steingrímsson eldklerkur og fleira fólk fyrri alda. Ólafur Gunnarsson gefur út hjá JPV útgáfu skáldsöguna Syndarinn, fjölskyldusögu sem gerist á seinustu áratugum síðustu aldar og er sjálfstætt framhald Málarans sem kom út árið 2012.


Ljóðstafur Jóns úr Vör – Ljóðasamkeppni í Kópavogi: Verðlaunafé tvöfaldað

Lista- og menningarráð Kópavogs efnir í fimmtánda sinn til árlegrar ljóðasamkeppni undir heitinu Ljóðstafur Jóns úr Vör. Öllum skáldum er velkomið að senda ljóð í keppnina en skilafrestur rennur út 10. desember. Veitt verða vegleg verðlaun og fær verðlaunaskáldið auk þess til varðveislu, í eitt ár, göngustaf áletraðan með nafni sínu.

Verðlaunaféð er tvöfaldað frá því í fyrra, þar sem enginn hlaut ljóðstafinn þá og nemur einni milljón króna sem skiptist þannig að 600.000 kr. eru veittar fyrir fyrsta sætið, 300.000 kr. fyrir annað sæti og 100.000 kr. fyrir þriðja sætið.

Greint verður frá niðurstöðum samkeppninnar og verðlaun veitt á afmælisdegi Jóns úr Vör 21. janúar 2016. Jón úr Vör bjó nánast allan sinn starfsaldur í Kópavogi en tilgangur keppninnar er að efla og vekja áhuga á íslenskri ljóðlist.

Ljóðum skal skilað með dulnefni. Nafn, heimilisfang og símanúmer skáldsins skal fylgja með í lokuðu umslagi, sem auðkennt er með sama dulnefni. Ljóðin mega ekki hafa birst áður.

Utanáskrift er: Ljóðstafur Jóns úr Vör,  Fannborg 2, 200 Kópavogur.


Annað höfundakvöld í Gunnarshúsi: Jón Kalman og Sigurjón Bergþór Daðason

jk+sbd

Næstkomandi fimmtudagskvöld, 22. október kl. 20.00, fer annað höfundakvöld haustsins fram í Gunnarshúsi, húsi Rithöfundasambandsins við Dyngjuveg 8. Þá mun Halla Þórlaug Óskarsdóttir spjalla við þá Jón Kalman Stefánsson og Sigurjón Bergþór Daðason um nýútkomnar bækur þeirra, auk þess sem höfundarnir lesa úr bókum sínum. Allir eru velkomnir meðan stólar leyfa, aðgangseyrir er 1000 krónur og veitingar innifaldar.

Jón Kalman Stefánsson gefur um þessar mundir út hjá Bjarti skáldsöguna Eitthvað á stærð við alheiminn, en hún er framhald bókarinnar Fiskar hafa enga fætur sem kom út árið 2013. Hér lýkur ættarsögunni sem hófst í þeirri bók og teygir sig frá Norðfirði forðum til Keflavíkur dagsins í dag, með viðkomu á Miðnesheiðinni. Sigurjón Bergþór Daðason gefur út hjá Veröld skáldsöguna Hendingskast, en í henni er sagt frá óvæntum atburðum sem koma róti á líf sögupersónanna. Þetta er fyrsta bók Sigurjóns en hann starfar einnig sem klarinettuleikari.